Stríðið gegn börnum

Skýrslan The War on Children
Skýrslan The War on Children

War on Children skýrslaÍ nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children, The War on Children – Time to end grave violations against children in conflict, er lýst miklum áhyggjum af öryggi og velferð barna á stríðs- og átakasvæðum. Skýrslan byggist á greiningu og upplýsingum úr árlegri skýrslu Aðalritara Sameinuðu þjóðanna (United Nations Annual Reports of the Secretary General on Children and Armed Conflict, CAAC) og nýrri rannsókn Friðarrannsóknasetursins í Osló (Peace Research Institute Oslo). Rannsóknin byggist á útgefnum og sannreyndum gögnum en hins vegar er ljóst að upplýsingar um börn á stríðshrjáðum svæðum skortir áþreifanlega. Er það mikið áhyggjuefni.

Þrátt fyrir þá skyldu stríðandi fylkinga að vernda börn þegar átök eiga sér stað verða börn engu að síður fyrir árásum á degi hverjum og þeir sem gerast sekir um slíkt eru ekki dregnir til ábyrgðar. Ef eitthvað er færist slíkt í aukana og er þar ekki síst grimmilegum átökum í Sýrlandi um að kenna. Það er brýn nauðsyn að grípa til aðgerða og binda endi á þetta stríð sem beinist að börnum í allt of ríkum mæli.

Megin niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

 • Fjöldi barna sem býr á átakasvæðum hefur aukist um meira en 75% frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, þegar hann var um 200 milljónir, í meira en 357 milljónir barna árið 2016. Þetta þýðir að um er að ræða eitt af hverjum sex börnum. 165 milljónir þessara barna verða fyrir beinum áhrifum af hörðum stríðsátökum. Börn sem búa við slíkar aðstæður hafa oft ekki aðgang að menntun eða heilsugæslu og verða oftar fyrir ofbeldi.
 • Börn sem búa í Mið-Austurlöndum eru líklegust til að þurfa að þola stríðsátök. Árið 2016 bjuggu tvö af hverjum fimm börnum á þessu svæði í um 50 km fjarlægð frá átakasvæði. Börn í Sýrlandi, Írak, Jemen og öðrum stríðshrjáðum löndum eru í mikilli áhættu um að verða fyrir öllum tegundum ofbeldis. Næst kemur Afríka en þar hafa stríðsátök áhrif á eitt af hverjum fimm börnum.
 • Sýrland, Afgangistan og Sómalía tróna á toppi tíu landa þar sem stríðsátök geysa og þar sem hættulegast er að vera barn samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá 2016.
 • Samkvæmt fjölmörgum mælikvörðum eru börn í meiri hættu nú á átakasvæðum en nokkurn tímann áður á síðustu 20 árum. Uppýsingar frá átakasvæðum eru oft takmarkaðar og mismunandi en sumar vísbendingar eru skýrar, t.d. hefur fjöldi látinna og limlestra barna margfaldast frá 2010 eða um 300%. Tilfellum þar sem aðgangur að mannúðarstarfi er heftur hefur einnig fjölgað 15 falt á sama tímabili og brottnám barna hefur einnig vaxið.
 • Einnig má, þrátt fyrir bætta staðla hvað varðar alþjóðalög og reglur til verndar börnum, sjá að grimmilegum aðferðum er beitt í ríkari mæli, þar á meðal að nota börn við sjálfsvígssprengingar, að velja skóla og sjúkrahús sem skotmörk og notkun á vopnum eins og klasasprengjum og tunnusprengjum.
 • Það hefur djúpstæð andleg áhrif og afleiðingar fyrir börn að búa á stríðshrjáðum svæðum og getur leitt til vítahrings ofbeldis þar sem næsta kynslóð glímir við það erfiða verkefni að endurreisa friðsamlegt samfélag í skugga áfalla vegna undangengins ofbeldis.
 • Átök í samtímanum virðast vera að taka breytingum á þann veg að vernda hermenn frekar en almenna borgara. Í þessari skýrslu kemur fram aukning á skráðum grófum brotum gegn börnum sem einkum má rekja til undanlátssemi og skorts á stjórnun, aukningar á stríðsrekstri í borgum og þéttbýli og notkunar á sprengivopnum á þéttbýlum svæðum sem og tíðari, lengri og flóknari átaka.

Í þessu ljósi hvetja Barnaheill – Save the Children ríki, herafla og alla aðra sem hafa með líf og limi barna að gera þegar átök geysa til að fylgja eftirtöldum fjórum aðgerðum.

 • Fyrirbyggja hættu barna
 • Framfylgja og fara eftir alþjóðalögum og reglum
 • Draga þá sem brjóta af sér til ábyrgðar
 • Stuðla að endurhæfingu og stuðningi við þá sem þolað hafa þjáningar

Niðurstöður þessarar skýrslu eru afdráttarlausar og skilaboðin skýr – grípa þarf til samstilltra og sameiginlegra aðgerða til að binda endi á grimmd og skeytingarleysi gagnvart börnum þegar stríðsátök eiga sér stað og tryggja þeim vernd.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Save the Children. Þar gefst einnig kostur á að undirrita áskorun til þjóðarleiðtoga heims um að grípa til aðgerða og stöðva stríðið gegn börnum.