Stuðningsyfirlýsing Barnaheilla vegna yfirlýsingar Tabú, þann 10. maí 2020

Börnum má ekki mismuna á grundvelli fötlunar, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.
Börnum má ekki mismuna á grundvelli fötlunar, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru samtök sem vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samtökin leggja áherslu á vernd barna gegn ofbeldi og bann við mismunun

Barnaheill hafa haft mál fatlaðs barns til skoðunar sem varð fyrir ofbeldi tvívegis, af hálfu leikskólastarfsmanns Kópavogsbæjar á árunum 2017 og 2018, en um málið var fjallað í héraðsdómi sem birtur var í apríl. Vegna þýðingar málsins fyrir börn í sömu stöðu, vilja samtökin lýsa yfir stuðningi við yfirlýsingu Tabú sem birtist þann 10. maí 2020 á vefsíðu hreyfingarinnar.

Barnaheill lýsa yfir áhyggjum sínum vegna meðferðar málsins af hálfu ábyrgðaraðila og vilja taka undir yfirlýsingu Tabú hvað varðar handvömm Kópavogsbæjar við að tilkynna um ofbeldið um leið og það fyrst gerðist. Sú háttsemi að láta hjá líða að tilkynna um ofbeldi gagnvart barni til barnaverndar er alvarleg handvömm og varðar refsingu skv. 2. mgr. 96. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ennfremur þykir samtökunum ástæða til að nefna mikilvægi þess að upplýsa strax foreldra um öll tilvik og alvarleg atvik á leikskóla sem áhrif geta haft á barn. Að mati Barnaheilla er óeðlilegt og óviðeigandi að foreldri hafi ekki verið upplýst um tilvikið, sem átti sér stað í október 2017, fyrr en eftir að síðara tilfellið hafði átt sér stað. Bregðast hefði átt við með því að tryggja öryggi barnsins um leið og fyrra tilfellið átti sér stað og gera viðeigandi ráðstafanir, svo sem að upplýsa foreldri um tilvikið og að senda starfsmanninn í veikindaleyfi.

Samtökin hafa áhyggjur af því að starfsfólki, sem starfar með og fyrir börn, sé heimilað að vinna áfram þrátt fyrir að vera undir slíku álagi, kvíða og streitu að komi geti niður á framkomu þess við börn. Ábyrgð vinnuveitanda stendur til að gæta þess að starfsfólk sé andlega fært til að halda ró sinni og jafnvægi í starfi sínu með börnum. Það má aldrei koma til þess að börn séu beitt ofbeldi og hvað þá að það sé liðið eða umborið vegna andlegs álags starfsfólks. Leggja verður þá ábyrgð á alla sem vinna með börnum að draga sig í hlé, t.d. í veikindaleyfi, ef aðstæður eru þær að hætta geti verið á andlegu ójafnvægi eða því að fólk missi stjórn á skapi sínu. Jafnframt að vinnuveitandi bregðist við ef grunur um slíkt vaknar, með því að veita starfsmanni tækifæri til að fara í veikindaleyfi, eða skylda hann til þess.

Jafnframt taka Barnaheill undir yfirlýsingu Tabú um alvarleika þess að viðkomandi starfsmaður hafi verið ráðinn til starfa við annan leikskóla í Reykjavík án þess að leitað væri umsagna frá fyrri vinnuveitendum. Barnaheill lýsa yfir áhyggjum sínum af því að upplýsingar um lögreglurannsókn fari leynt í slíku ráðningarferli, þar sem börn eru ekki látin njóta vafans að fullu ef ekki er upplýst, nema fréttist af fyrir tilviljun eða ef viðkomandi einstaklingur segi sjálfur frá, að grunur sé um að refsivert brot gegn barni hafi átt sér stað. Barnaheill leggja til að það verði gert að lögboðinni skyldu að leita umsagna hjá fyrri vinnuveitendum áður en ráðið er í störf með og fyrir börn. Í núverandi leikskólalögum er ekki kveðið á um að leita skuli umsagna hjá fyrrum vinnuveitendum við ráðningu starfsfólks. Mikilvægt er að tryggja að upplýsingar sem skipt geta máli við ráðningu berist áður en ákvörðun um hana er tekin. Allar ákvarðanir sem varða börn ber að taka með það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi.

Forsvarsfólk Barnaheilla er hugsi vegna þeirrar niðurstöðu héraðsdóms að gera sakfelldu ekki refsingu vegna brota sem hún gerðist sek um. Barnaheill hvetja ekki til refsinga sem slíkra en telja niðurstöðuna þó vekja upp spurningar um mismunun gagnvart hinu fatlaða barni. Af dóminum má ráða meiri meðlíðan með sakfelldu, þreytu hennar, veikindum og áfalli í kjölfar málsins en fötluðu barninu sem beitt var ofbeldinu. Nær enga umfjöllun er að finna um áhrif ofbeldisins á líf þess í dómi héraðsdóms en töluvert mikla umfjöllun um áhrif hugsanlegrar refsingar á sakfelldu. Að mati Barnaheilla er tilefni til að skoða hvort sú niðurstaða dómsins að gera sakfelldu ekki refsingu bendi til þess að fötluð börn sem verða fyrir ofbeldi á Íslandi njóti ekki sömu refsiverndar laga og dómskerfisins og aðrir borgarar landsins, í andstöðu við lög og alþjóðasamninga. Börnum má ekki mismuna á grundvelli fötlunar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 5. og 7. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Fötluð börn hafa sama rétt til verndar gegn ofbeldi sem önnur börn.

Hvað varðar yfirlýsingu Tabú um að þörf sé á endurmenntun dómara, þá vilja Barnaheill taka fram að þau sjá tækifæri til umbóta innan réttarvörslukerfisins, m.a. með aukinni fræðslu og þjálfun er varðar málefni barna, þ. á m. að tryggt sé að fötluðum börnum sé tryggð réttarvernd og réttlát málsmeðferð fyrir dómstólum, sbr. m.a. 2. mgr. 13. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Barnaheill bjóða fram krafta sína og taka gjarnan þátt í samstarfi um þróun fræðsluefnis fyrir dómstóla um mannréttindi barna.

Barnaheill harma það ef rétt reynist að embætti ríkissaksóknara hafi synjað um áfrýjun til Landsréttar eins og fjallað er um í yfirlýsingu Tabú. Að mati samtakanna er mikilvægt að fá fram sjónarmið Landsréttar um málið.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum allra barna og leggja sérstaklega áherslu á bann við mismunun og vernd gegn ofbeldi. Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.