Sumarið sem breyttist í martröð

Þrettán ára unglingur er stoltur af sjálfum sér. Hann hefur frumkvæði af því að tala við yfirmenn á hóteli og reddar sér sumarvinnu. Fyrstu alvöru vinnunni sinni – og ekki bara unglingavinnunni. Hann fær flottan búning og gengur til liðs við hóp pikkalóa á svipuðum aldri. Yfirmaður þeirra er vingjarnlegur. Hann er hjálplegur. Þetta verður gott sumar. ... En þetta varð ekki gott sumar. Því yfirmaðurinn var barnaníðingur.
Gunnar Hansson, leikari, lifði einn með reynslu sinni af kynferðislegri misnotkun í tæpa tvo áratugi. Hann sagði ekki nokkrum lifandi manni frá þeirri niðurlægingu sem hann hafði orðið að þola og bægði hugsuninni frá sér þegar hún leitaði á hann. Þögnin var við völd allt til ársins 2002, þegar hann lék í leikriti sem fjallar að hluta um kynferðislegt ofbeldi.
Í vetur var Gunnar svo einn þeirra fjölmörgu þolenda barnaníðingsins Karls Vignis Þorsteinssonar, fyrrverandi starfsmanns á Hótel Sögu, sem steig fram í Kastljósi Sjónvarpsins og lýsti reynslu sinni opinberlega. „Þetta var svo skrítinn tími allt frá því ég byrjaði á Hótel Sögu og kynntist honum. Hann var ofsalega vinalegur, ávann sér traust og náði þannig að hafa öll völd í hendi sér. Þegar ég fór að heyra raddir og spurningar hjá hinum pikkalóunum, kokkum og þjónum, um hvort ég hefði farið með honum á Mímisbar, áttaði ég mig ekki á því hvað þeir voru að meina. Þetta var allt sett fram í grínbúningi og aldrei bein viðvörun. Margir virtust vita að það var eitthvað skrýtið í gangi. En svo lenti ég í því. Nákvæmlega eins og þeir sögðu. Hann kallar mig inn á Mímisbar á einhvers konar fund og þar misnotar hann mig í fyrsta skipti, og svo ítrekað yfir sumarið.“
Þrátt fyrir að vera í góðu samandi við foreldra sína sagði Gunnar þeim ekki frá ofbeldinu. Ekki heldur bestu vinum sínum. Honum fannst hann bera ábyrgð á því að hafa leyft þessu að gerast og stoppa ekki atburðarrásina með einhverjum hætti. Skömmin og sektarkenndin tóku völdin. „Ég hef oft hugsað um viðbrögð mín eftir á. Ég meira að segja fór að leika sama leik og samstarfsfólk mitt gerði og lét mig líta út sem töffara sem myndi aldrei láta svona gerast. Það kom auðvitað ekki til greina að vinna þarna næsta sumar á eftir. Og svo lokaði ég bara á þetta.“
Ofbeldið hafði gífurlega mikil áhrif á Gunnar sem var á þessum tíma að að hefja kynþroskann. Það birtist ekki síst í vantrú á honum sjálfum gagnvart hinu kyninu og allt sem viðkom kynlífi eða líkamlegum kenndum varð að mikilli skömm.
Árið 2002 var Gunnar að æfa fyrir leikritið And Björk of Course sem fjallar meðal annars um kynferðislegt ofbeldi. Opinskáar umræður og traust í leikarahópnum urðu til þess að hann opnaði sig um ofbeldið í fyrsta sinn og byrjaði að vinna sig í gegnum reynsluna. „Ég hafði talið mér trú um að mér fyndist þetta ekkert mál og að ég væri búinn að díla við þetta. En þarna fer mér allt í einu að líða rosalega illa og brotna saman. Við það létti mér alveg ótrúlega mikið og það var eins og ég hefði lést um 50 kíló. Mér leið svo miklu betur yfir því að hafa sagt frá þessu og þá áttaði ég mig á því hversu fáránlegt það var að halda að þetta væri mér að kenna. Og ég fatta að það var einmitt sú hugsun sem varð til þess að ég ræddi þetta aldrei við neinn. Trúin á að ég ætti sök á þessu. Á þessum tímapunkti, þar sem ég er rúmlega þrítugur, orðinn þetta þroskaður og faðir tveggja barna, fatta ég að ég átti ekki break í þessum aðstæðum. Karl Vignir hafði algjöra yfirburði á allan hátt og hann misnotaði vinskap og traust og gerði mann samsekan. Sá skilningur var mikill léttir. Í framhaldinu sagði ég konunni minni frá þessu og svo foreldrum mínum. Og þá létti mér enn meira.“
Þetta var fyrsti áfanginn í því ferli að vinna sig í gegnum reynsluna. Þó svo að Gunnari hafi fundist að þarna hefði hann loksins lokað málinu, segir hann eftir á að hann hafi í raun bara snert á yfirborðinu.
Nokkrum árum seinna hafði Ragnhildur Stein unn á RÚV samband og bað Gunnar að leika í sviðsettu atriði sem tengdist umfjöllun í Kastljóssinu um kynferðislega misnotkun. Gunnar átti að reyna að fá ókunnug börn í leikskóla til að koma með sér í bíl. Þetta var í samvinnu við foreldrana  og Gunnar átti ekki að þekkjast. „Þegar hún byrjaði að tala um þetta við mig, fór mér að líða ótrúlega illa. Mér fannst þetta fáránlegt og vildi alls ekki taka þátt í þessu. Og þá fann ég aftur að ég var ekki búinn að vinna mig út úr þessu.“
Móðir Gunnars er prestur og hefur unnið mikið í sáluhjálp. Gunnar sagði henni frá símtalinu og hvað það hefði hreyft mikið við honum. Samtalið varð til þess að hann fór að hugsa um mikilvægi þess fyrir unga þolendur að sjá einhvern deila reynslu sinni. „Það hefði verið mér hvatning að sjá einhvern segja frá. Að skilja að þetta væri ekki mér að kenna, að sjá að þarna væri maður sem væri tiltölulega heill og liði vel. Að ég sæi einhverja von. Að ég áttaði mig á því að þetta væri ekki stimpill.“
Hann talaði því aftur við Ragnhildi Steinunni og árið 2009 deildi hann reynslu sinni í fyrsta sinn opinberlega í Kastljósinu, án þess að nefna að Karl Vignir hafi verið gerandinn. Viðtalið féll nokkuð í skuggann af Búsáhaldabyltingunni, en Gunnari leið vel á eftir. Hann fékk fín viðbrögð og í kjölfarið komu fleiri drengjamál upp á yfirborðið. Að koma fram virtist skipta máli.
Sprengjan
„Þegar Kastljósið hafði svo samband aftur út af Karli Vigni á þessu ári, fannst mér aftur að ég hefði unnið mig í gegnum þetta, þó svo að ég hefði aldrei farið í meðferð eða ráðgjöf. Fyrra viðtalið var jákvæð reynsla svo ég samþykkti að taka þátt. Þetta yrði ekki svo mikið mál. En svo hrærði þetta alveg ótrúlega mikið upp í mér aftur núna í janúar.“
Umfjöllun Kastljóssins varð að einu stærsta samfélagsmáli nútímans. Afhjúpun Karls Vignis nánast í beinni útsendingu hafði mikil áhrif og áratuga þöggun samfélagsins varð eitt mesta hitamálið. Fólk var reitt. En loksins var barnaníðingurinn Karl Vignir handtekinn eftir nær hálfrar aldar misnotkun á að minnsta kosti tugum drengja. „Ef ég hefði séð þessa miklu reiðiöldu út af þessu máli fyrir og þá sterku umræðu sem ég varð var við í gegnum samfélagsmiðlana, hefði ég líklega ekki þorað að koma fram. Ég áttaði mig á því að ef ég 13 ára hefði horft á þetta þróast svona, hefði ég dregið mig til baka. En þessi stóra sprengja hafði þau áhrif að fullorðið fólk þorði að segja frá.“
Viðbrögð fólks við hans hlut í málinu voru hins vegar góð og fólk sýndi honum mikinn stuðning. Að koma fram opinberlega varð til þess að tugir manna höfðu samband við hann í gegnum Facebook og deildu reynslu sinni. „Margir þeirra voru karlmenn sem höfðu aldrei rætt þetta áður og þetta varð eins og flóðbylgja. Það var þannig lagað mjög gott, en hafði ofboðslega einkennileg áhrif á mig. Mér fannst eins og það væri galopið inn á mig, sem var mjög skrýtin tilfinning. Fólk lýsti fyrir mér hræðilegum hlutum sem það hafði lent í og mér fannst ég ekki geta hjálpað því. Ég þakkaði því fyrir að treysta mér og benti á sérfræðinga hjá Stígamótum og öðrum aðilum sem sjá um svona mál. Þetta var ansi skrýtið og ég lokaði mig af í viku því ég meikaði ekki að hitta fólk.“
„Ég held að þetta sé svipað og þegar fólk greinist með alvarlega sjúkdóma. Það sýna allir svo mikla hluttekningu. Það er vel meint, en það er ofsalega skrýtið að vera allt í einu í þeirri stöðu að fá annað hvort ofsalega mikla hluttekningu, eða að fólk kemur og trúir manni fyrir hlutum.“
Lögreglan hafði samband út af skýrslutöku nokkru seinna og Gunnari var útvegaður lögfræðingurinn Elva Dögg Ásudóttur. Hún hafði unnið mikið með mál af þessu tagi og ráðlagði honum að fara fram á bætur. Það væri hluti af því að loka málinu og fá einhvers konar viðurkenningu á því gagnvart kerfinu. „Fyrstu viðbrögð mín voru að segja að það væri fráleitt. Alveg út í hött því margir hefðu lent í mun verri reynslu. Hún benti mér á að það væru gegnumgangandi viðbrögð þolenda að gera lítið úr reynslunni, alveg sama hversu alvarleg brotin væru. Ég brotnaði saman þegar ég áttaði mig á því að það var ákkúrat málið. Ég var enn að gera lítið úr þessari reynslu og kenna sjálfum mér um, þótt ég vissi betur. Elva Dögg hjálpaði mér mikið.“
Að segja frá
Börn Gunnars voru sex og átta ára þegar hann ræddi þetta við þau í fyrsta skipti. „Þá sagði ég þeim að pabbi hefði lent í manni sem gerði hluti sem hann hefði ekki átt að gera. Ég reyndi að gera það án grafískra lýsinga og án þess að láta gerandann líta út sem ljótan kall. Á þann hátt að ef eitthvað svipað kæmi upp hjá þeim, myndu þau koma til mín. Ég veit ekki hvort ég fór rétta leið, en þau spurðu mig spurninga og voru að melta þetta í dálítinn tíma.“
Síðan hefur umræðuefnið komið reglulega upp í fjölskyldunni, og þrátt fyrir að Gunnar hafi óttast að börnin yrðu fyrir aðkasti út af sögu hans í fjölmiðlum, hafa þau ekki fundið neitt slíkt frá félögum sínum.
„En það er annað sem hræðir mig gagnvart börnunum mínum og það er að ég skyldi ekki segja mömmu frá þessu á sínum tíma. Við vorum í trúnaðarsambandi og hún var með betri aðilum sem ég hefði mögulega getað deilt þessu með. Hún vann sem meðferðarfulltrúi og svo seinna prestur í fjölda ára við að hjálpa fólki í gegnum erfiðar aðstæður. Bara þessi hugsun gerir mann svo hjálparlausan sem foreldri. Hverju halda börnin frá manni og af hverju?“

Besta leiðin til að fá börn til að segja frá að mati Gunnars er að þau hlusti á einhvern með reynslu útskýra hvað hann/hún gekk í gegnum, hverjar afleiðingarnar voru og hvernig líðanin hefur verið. Að þau sjái einstakling sem er ekki brotinn. „Að þau átti sig á því að það er von og það er hægt að láta sér líða vel og vera hamingjusamur eftir svona erfiða reynslu. Og að þau átti sig á því að sökin er aldrei þeirra, aldrei! Auk þess hefði ég viljað heyra á sínum tíma hversu mikilvægt það er að leita sér hjálpar, því þetta eru of stórir hlutir fyrir mann sjálfan að glíma við. Það er til svo mikið af góðu fólki sem getur hjálpað.“
Í langflestum tilfellum eru börn misnotuð kynferðislega af einhverjum sem þau þekkja, jafnvel einhverjum í fjölskyldunni. Þó Karl Vignir hafi ekki verið Gunnari ókunnugur, voru þeir ekki tengdir fjölskyldu- eða vinaböndum. „Börn þurfa að geta sagt frá svona ofbeldi í algjöru trausti. Þau eru hrædd við athyglina og ef gerandinn er einhver sem þeim þykir vænt um vilja þau ekki að hann verði tekinn af lífi opinberlega. Þau þurfa að vita að þau geti leitað sér hjálpar án þess að nokkur viti af því. Það þurfi ekki allir að koma fram opinberlega. Það þarf bara nokkra til að koma umræðunni af stað og ég er einn af þeim.“
Gunnar hafði lengi samviskubit yfir því að hafa ekki sagt frá, til að stöðva Karl Vigni því hann var viss um að hann hefði haldið áfram uppteknum hætti með aðra drengi. Hann velti því líka fyrir sér af hverju enginn hefði stöðvað manninn miklu fyrr, þar sem svo margir grunuðu hann um kynferðislega mis beitingu. „Ég fyrirgef sjálfum mér hvernig ég tók á þessu, því ég var bara barn og ég gerði eins vel og ég gat. En þegar svona mál koma í umræðuna, sérstaklega eftir að stærðargráðan á málum Karls Vignis kom í ljós, leita svona hugsanir samt aftur á mig.“
Aðstandendur
Aðstandendur vilja gleymast í málum af þessu tagi og í raun eru fá úrræði í boði fyrir þann hóp. „Það var átakanlegt fyrir mig að sjá hvaða áhrif þetta hafði á foreldra mína. Vanmátturinn sem fylgdi fréttinni um að barnið þeirra hefði verið misnotað á þennan hátt. Þau gátu ekkert gert. Vissu ekkert. Og það kom upp algjört hjálparleysi og reiði, sem var meiri en reiðin hjá mér.“
„Það þurfa að vera til úrræði fyrir aðstandendur en við þurfum líka að hugsa um gerendurna. Þeir eru sjúkir. Það þarf að finna orsökina fyrir þeirri kennd hjá þeim að girnast börn. Gerendurnir eru ekki bara grimmir vondir karlar sem kippa börnum upp í bíl, þótt þeir geti vissulega verið það. Börnin eru alltaf saklausir þolendur. Við þurfum sem samfélag að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn, til að geta komið í veg fyrir þau.“ Strangari viðurlög eða refsingar munu ekki breyta neinu að mati Gunnars. Líkt og í tilfelli Steingríms Njálssonar sem ítrekað var stungið inn, en kom alltaf út aftur án þess að betrun hefði orðið. Sömu kenndir og hvatir voru áfram við lýði og því þurfi að breyta.
 
Viðtal og ljósmynd: Sigríður Guðlaugsdóttir