Syndir frá Vestmannaeyjum til Landeyjasanda til styrktar Barnaheillum

Sjósundkappinn Sigurgeir Svanbergsson stefnir á Eyjasund í lok júlí þegar hann mun synda frá Vestmannaeyjum og yfir til Landeyjasanda. Sundið er til styrktar börnum sem búa á átakasvæðum. Undirbúningur er í fullum gangi en leiðin sem hann mun synda er rúmlega 12 kílómetrar.

Sigurgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að sjósundi en árið 2021 synti hann þvert yfir Kollafjörð, frá Kjalarnesi yfir til Reykjavíkur. Sundið tók um 9 klukkustundir og var leiðin um 12 kílómetrar. Sundið gekk ekki áfallalaust fyrir sig og lenti Sigurgeir í allskonar hindrunum. Á leiðinni varð fylgdarbáturinn hans vélarvana og synti Sigurgeir því í hringi í klukkutíma og komst í kynni við nokkrar marglyttur. Á meðan beðið var eftir öðrum fylgdarbáti breyttust straumar í firðinum og í kjölfarið missti hann dýrmætan tíma og lenti því í miklum mótstraumi. Allt er gott sem endar vel og komst syndandi í land í Bryggjuhverfi.

hér má heita á Sigurgeir 

Barnaheill – Save the Children starfa í 120 löndum og veita til að mynda mannúðaraðstoð á átakasvæðum. Þar leggja samtökin áherslu á öryggi og vernd barna og hafa sett upp svokölluð Barnvæn svæði víða um heim þar sem börn á flótta geta fundið öruggt athvarf. Fjöldi barna sem búa á átakasvæðum í heiminum hefur aukist mikið undanfarin ár en í dag býr eitt af hverjum sex börnum í heiminum eða 450 milljónir barna á átakasvæðum. Það er 5% aukning frá árinu á undan. Afleiðingar átaka geta haft varanleg áhrif á börn, svo sem á líkamlega, tilfinningalega og vitræna heilsu. Börn á átakasvæðum þurfa aukinn sálrænan stuðning en talið er að um 85% barna á átakasvæðum þurfi nauðsynlega á þeim stuðningi að halda. Einnig hafa átök áhrif á aðgengi barna að mat og hreinu vatni, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum. Aukin hætta er á því að börn sem búa á átakasvæðum missi úr námi eða neyðist til þess að hætta.

Með því að styðja við Eyjasund Sigurgeirs veitir þú börnum sem búa á átakasvæðum í heiminum stuðning.