Talíbanar banna konum að sinna hjálparstarfi í Afganistan

Barnaheill - Save the Children hafa stöðvað starfsemi sína í Afganistan í kjölfar þess að Talíbanar, sem hafa setið við stjórnvölinn í Afghanistan síðan haustið 2021, tilkynntu að konum væri bannað að vinna við hjálparstörf. Bann Talíbana kemur í kjölfar þess að hjálparstarfsfólk hefur ekki fylgt reglum stjórnvalda um íslamskan klæðaburð fyrir konur.

,,Við getum ekki og munum ekki halda starfsemi okkar áfram í landinu fyrr en við höfum tryggt öryggi kvenna í okkar verkefnum en helmingur starfsfólks Barnaheilla á svæðinu eru konur,” segir talsmaður Barnaheilla – Save the Children í Afganistan.

Barnaheill – Save the Children eru ein af stærstu hjálparsamtökum sem starfa í Afganistan og hafa starfað í landinu frá árinu 1976. Frá því að Talíbanar komust til valda í september 2021 hafa Barnaheill aðstoðað 4 milljónir fólks, þar á meðal 1 milljón stúlkna og 1,2 milljón kvenna.

Í dag þurfa 28 milljónir landsmanna - þar á meðal 14 milljón börn á mannúðaraðstoð að halda í Afganistan. Það er meira en helmingur af íbúafjölda landsins. 97% landsmanna eiga á hættu að lífskjör þeirra verði undir fátæktarmörkum á þessu ári. Íbúar landsins standa einnig frammi fyrir mestu matvælakreppu frá upphafi mælinga en 18,9 milljónir manna, þar af 9,2 milljón börn glíma við alvarlegt hungur á hverjum degi.

,,Með þessari ákvörðun stjórnvalda í Afganistan, að banna konum að vinna við hjálparstörf, standa stúlkur og konur frammi fyrir einni mestu mannúðarkreppu í heiminum. Starf kvenna í verkefnum Barnaheilla í Afganistan er mikilvægt en þær starfa m.a. sem læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, ráðgjafar, kennarar og eru sérfræðingar á sviði fjármála, öryggismála og mannauðsmála. Stúlkum og konum í Afganistan er bannað að sækja sér þjónustu frá karlkyns læknum og hjúkrunarfræðingum og stúlkum er bannað að hafa karlkyns kennara. Með þessu banni getum við og aðrar hjálparstofnanir ekki veitt þjónustu til milljóna kvenna,“ segir Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla.

,,Ég er niðurbrotin,” segir Fatima sem hefur verið kennari í Afganistan í mörg ár. ,,Ég elska starfið mitt meira en nokkuð annað. En nú hafa Talíbanar bannað mér að starfa sem kennari þar sem þeir flokka starf mitt sem hjálparstarf.” Fatíma er afgönsk en þrátt fyrir það má hún ekki vinna starf sitt. ,,Þeir segja að starfið mitt sé ekki nauðsynlegt.”

Fjöldi ríkja í heiminum hafa fordæmt bann Talíbana og hafa utanríkisráðherrar skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þrýsta á Talíbana að draga vinnubann kvenna hjá hjálparstofnunum tafarlaust tilbaka. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var ekki á meðal ráðherra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna.

Þetta bann er mannréttindabrot sem hindrar ekki einungis þátttöku kvenna á vinnumarkaðnum heldur kemur einnig í veg fyrir að stúlkur og konur í Afganistan fái þá lífsnauðsynlegu aðstoð sem þær þurfa.

 

Staðreyndir um starfsemi Barnaheilla í Afghanistan.

1. 5.700 starfsfólk á vegum Barnaheilla hefur starfað í Afganistan síðan 1976

2. 2.490 konur hafa starfað á vegum Barnaheilla í Afganistan síðan 1976

3. Barnaheill hafa aðstoðað 3.9 milljón manns síðan Talíbanar tóku við völdum haustið 2021. Þar af aðstoðað 1 milljón stúlkur og 1.2 milljón konur.

4. Barnaheill starfa í 17 sýslum af 34 í Afganistan.

5. 14 milljón börn þurfa á mannúðaraðstoð að halda í Afganistan.

6. Í dag eru 73.000 börn í meðferð hjá Barnaheillum vegna alvarlegrar vannæringar.

7. Í dag þiggja 30.000 konur umönnunaraðstoð í gegnum verkefni Barnaheilla – Save the Children

8. 130.514 heimili hafa þegið peningaaðstoð síðan árið 1976 – samtals 2,3 milljarða króna.


Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.