Þórunn Ólý Óskarsdóttir hlýtur Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

Þórunn Ólý Óskarsdóttir, forstöðukona unglingasmiðjanna Traðar og Stígs, hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2010 fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda.

Þórunn Ólý Óskarsdóttir

Barnaheill - Save the Children á Íslandi veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi samtakanna.

Í ár hlaut Þórunn Ólý Óskarsdóttir viðurkenninguna. Hún er forstöðukona unglingasmiðjanna Stígur og Tröð sem reknar eru af Reykjavíkurborg. Frá árinu 1987 til dagsins í dag má ætla að ríflega 600 ungmenni hafi notið góðs af starfsemi smiðjanna. Flest þeirra leita þangað vegna félagslegrar einangrunar, eineltis, hlédrægni, skerts sjálfstrausts og í sumum tilfellum vegna erfiðra uppeldisskilyrða. Ungmennin eru á aldrinu 13-18 ára. Með markvissum stuðningi hafa þau náð að efla sjálfstraust sitt og jákvæða sjálfsmynd, bæta líðan og leita leiða til uppbyggilegra lausna. Hópkenndin er styrkt og lögð áhersla á jákvæð samskipti þar sem virðing og umburðarlyndi eru í fyrirrúmi. Þá er hæfni í félagslegum samskiptum þjálfuð. Ungmennin leita til smiðjanna af fúsum og frjálsum vilja og þátttaka í starfinu er á þeirra ábyrgð.

Þórunn Ólý útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskólanum í Stafangri árið 1977. Hún hóf starfsferil sinn á Meðferðarheimilinu á Kleifarvegi 15, vann í átta ár við Sálfræðideild skóla en árið 1986 tók hún við starfi forstöðumanns Unglingaathvarfsins í Breiðholti sem síðar varð Unglingasmiðjan Tröð. Síðastliðin tvö ár hefur hún gegnt starfi sem forstöðumaður beggja unglingasmiðjanna.

Að öðrum ólöstuðum, hefur Þórunn Ólý verið drifkrafturinn í starfsemi unglingasmiðjunnar Traðar undangengin ár og einnig hefur hún átt mikla aðkomu að starfi unglingasmiðjunnar Stígs í gegnum árin. Hún hefur verið óþreytandi í baráttunni fyrir unga fólkið sem þátt hefur tekið í starfinu og þakklæti foreldra og ævarandi tengsl við skjólstæðinga bera starfinu gleggst vitni. Þórunn Ólý hefur einnig í gegnum tíðina barist &ouml