Þúsundir barna á flótta undan átökum og lifa á götum Kabúl

Miklar óeirðir hafa átt sér stað í Afganistan á síðustu dögum þar sem Talíbanar hafa lagt undir sig stórt svæði. Talíbanar hafa meðal annars ráðist inn í höfuðborgina Kabúl og tekið yfir forsetahöllina og hefur forseti landsins, Ashraf Ghani flúið land. Á undanförnum dögum, áður en Talíbanar náðu að brjótast inn í höfuðborgina, höfðu þúsundir manna flúið til Kabúl og þar af er áætlaðað um 72 þúsund börn hafi komið til Kabúl, eftir að hafa flúið heimili sín vegna aukins ofbeldis. Mörg þeirra lifa ýmist á götunni eða í tjöldum og eru án matar

Í könnun sem Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the children lögðu fyrir 630 fjölskyldur, sem hafa komið til Kabul á síðustu dögum, sagðist rúmlega helmingur þeirra (324) hafa lítinn eða engan aðgang að matvælum eða annarri aðstoð.

Flestar fjölskyldurnar hafa þurft að taka afdrifaríkar ákvarðanir til að lifa af, eins og að selja allar eigur sínar til að eiga fyrir mat, láta börn sín stunda vinnu, eða draga verulega úr fæðuinntöku. Allar fjölskyldurnar hafa þurft að koma sér í miklar skuldir til að reyna að komast í skjól.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hafa varað við hugsanlegri útbreiðslu veikinda þar sem fjölskyldurnar neyðast til að hafa hægðir sínar á almannafæri.

„Þetta eru hörmungar sem eru að gerast fyrir augum heimsins,“ segir Christopher Nyamandi, landsstjóri Barnaheilla í Afganistan. „Fjölskyldur sem nú þegar búa í Kabul hafa gefið allan þann mat sem þær geta séð af til flóttafólksins, en það dugar bara ekki til. Og fleiri fjölskyldur streyma að á hverjum klukkutíma. Við munum sjá börn svelta og jafnvel þjást af næringaskorti mjög fljótlega.”

„Fólk drekkur vatn úr skítugum ílátum, það er ekkert hreinlæti í þessum aðstæðum, við erum einu skrefi frá útbreiddum veikindum.”

Christopher segir einnig að fólkið í Afganistan þurfi ekki bara athygli heimsins, heldur þurfi það líka hjálp til að fara í gegnum þetta þar sem þetta séu fjölskyldur með börn og gamalmenni. Starfsfólk Barnaheilla hittu að minnsta kosti 13 barnshafandi konur. „Við getum ekki snúðið baki við þeim, við þurfum tjöld, mat, hreint vatn, og hreinlætisaðstæður strax.” Christopher bendir á að eina raunhæfa lausnin sé að stöðva átökin, og að stríðandi fylkingar komist að samkomulagi. „En þangað til það tekst, þurfum við að styðja við börn og fjölskyldur þeirra sem hafa lent á milli í þessum hræðilegu átökum,” bætir hann við.

Barnaheill styðja við fjölskyldur sem streyma að með því að færa þeim teppi og heimilisvörur, og munu auka viðbrögð sín í Afganistan vegna niðurstaða könnunarinnar.