Til hamingju með 90 ára afmælið kæra Vigdís

Vigdís Finnbogadóttir fagnar 90 ára afmæli sínu í dag 15. apríl
Vigdís Finnbogadóttir fagnar 90 ára afmæli sínu í dag 15. apríl

Frú Vigdís Finnbogadóttir fagnar í dag, 15. apríl 90 ára afmæli sínu. Í ár eru einnig 40 ár liðin frá því að hún var kosin forseti Íslands og var þar með fyrsta konan í heiminum sem var lýðræðislega kjörin sem þjóðarleiðtogi.

Vigdís hefur verið kraftmikil og mikilvæg fyrirmynd í gegnum tíðina og með framsýni að leiðarljósi beitt sér í hinum ýmsu málaflokkum sem rík þörf er á, meðal annars málefnum barna.

Vigdís kom að stofnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 1989, en samtökin voru þá þau einu sem unnu að réttindum barna á Íslandi. Þörfin á samtökunum var mjög mikil og lét Vigdís meðal annars hafa eftir sér að börnin væru framtíðin og það væri á okkar ábyrgð að búa þeim betri heim. Vigdís varð að eigin ósk fyrsti stofnfélagi Barnaheilla, hún er verndari samtakanna og kemur hugmyndin að nafni samtakanna „Barnaheill“ frá henni.

Til hamingju með afmælið kæra Vigdís og takk fyrir þitt framlag í baráttunni fyrir réttindum allra barna.