Tímamótaályktun sem gæti haft gífurleg áhrif á réttindi barna

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children fagna nýjum ályktunum sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt. Ályktanirnar fela í sér að:

- koma á nýju ferli til að koma á framfæri og standa vörð um mannréttindi í tengslum við loftslagsbreytingar

- aðgangur að hreinu og heilbrigðu umhverfi séu grundvallarréttindi.

Yolande Wright, starfsmaður alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, telur að þessar ályktanir geti haft gríðarleg áhrif á réttindi barna.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti tímamótaályktun sem gæti haft gífurleg áhrif á réttindi barna til öruggrar og sjálfbærrar framtíðar. Þessar tvær ályktanir sem voru samþykktar í dag sýna fram á að loksins séu valdhafar að hlusta á raddir barna.
Börn um allan heim þurfa að búa við afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Nýleg rannsókn frá alþjóðasamtökum Barnaheilla – Save the Children sýndi fram á að börn sem fæðst hafa síðastliðið ár, muni að jafnaði, þurfa að ganga í gegnum sjöfalt fleiri hitabylgjur en afar þeirra og ömmur, nánast þrefalt fleiri þurrka og þrefalt fleiri uppskerubresti.
Börn sem við vinnum með eru í sívaxandi mæli að segja okkur að þau vilji að leiðtogar heims grípi til frekari aðgerða til þess að takmarka þetta hættuástand.

Sextán ára Chatten frá Filippseyjum var einungis átta ára þegar heimili hans eyðilagðist af völdum fellibylsins Haiyan. ,,Börn hafa átt lítinn þátt í því að valda hamfarahlýnun en við erum samt sem áður sá hópur sem hún mun bitna mest á.“

Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children fagna nýjum ályktunum sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt og hvetja leiðtoga til þess að hlusta á börn og grípa til frekari aðgerða á COP26 ráðstefnunni sem haldin verður þann 31. október næstkomandi í Glasgow. Samtökin hvetja til þess að takmarka meðalhlýnun jarðar við 1,5°C (miðað við fyrir iðnbyltingu). COP-ráðstefnur eru haldnar á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem fjallað er meðal annars um loftslagsmál.