Umfjöllun um börn í fjölmiðlum

Barnaheill ­ Save the Children á Íslandi hafa gefið út almenn viðmið um op­inbera umfjöllun um börn í samvinnu við Fjölmiðlanefnd, SAFT, UNICEF á Íslandi og umboðsmann barna.
Íslenskir fjölmiðlar hafa hingað til ekki haft samræmdar reglur eða viðmið um hvernig fjalla skuli um börn opinberlega og vill hópurinn ráða bót á því til að stuðla að því að börn njóti réttinda sinna þegar kemur að umfjöllun um þau eða foreldra þeirra. Að mati hópsins er mikilvægt að fram fari vitundarvakning um mannréttindi barna eins og þau birtast í opinberri umræðu.
Börn eru einstaklingar yngri en 18 ára. Börn njóta tjáningarfrelsis og er það áréttað í Barnasáttmálanum, sem var lögfestur hérlendis með lögum nr. 19/2013, en hann felur í sér viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Að því sögðu eru börn viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ennfremur er börnum tryggður réttur til friðhelgi einkalífs í Barnasáttmálanum og stjórnarskrá.


Skoðanir fólks og umræðan í samfélaginu mótast að miklu leyti af því sem fjölmiðlar setja á dagskrá hverju sinni. Því er mikilvægt að vandað sé til verka í allri umfjöllun sem snýr að börnum, að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hagi störfum sínum samkvæmt því. Viðmiðunum er ætlað að styrkja fjölmiðla í að þjóna almannahlutverki sínu með réttindi barna að leiðarljósi.


Þóra Jónsdóttir og Sigríður Guðlaugsdóttir
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.