Undirskriftasöfnun um að binda enda á drápin í Sýrlandi og hleypa mannúðarsamtökum inn í landið

Barnaheill - Save the Children hafa hafið undirskriftasöfnun til að auka alþjóðlegan þrýsting á að bundinn verði endir á drápin í Sýrlandi og að börnum þar sé tryggð mannúðaraðstoð.

Barnaheill - Save the Children hafa hafið undirskriftasöfnun til að auka alþjóðlegan þrýsting á að bundinn verði endir á drápin í Sýrlandi og að börnum þar sé tryggð mannúðaraðstoð.

Fjöldi barna hefur látist eða særst alvarlega í átökum í Sýrlandi undanfarna daga og vikur. Sum hafa verið innilokuð á heimilum sínum svo vikum skiptir, hrædd, þyrst og köld. Barnaheill – Save the Children ítreka að öll börn, líka börn á átakasvæðum, eigi rétt á að fá vernd líkt og kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mjög brýnt að mannúðarsamtök fái óheftan aðgang að landinu til að hjálpa börnum í neyð.

„Við verðum að binda enda á drápin í Sýrlandi“, segir Ágúst Þórðarson, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. „Við vitum af börnum sem hafa látist og særst alvarlega í þessum átökum. Það sem sýrlensk börn þurfa að þola núna á eftir að hafa gríðarleg áhrif og þau þurfa hjálp. Sem stendur veita Barnaheill – Save the Children börnum sem flúið hafa frá Sýrlandi til nágrannalandanna aðstoð, en við náum ekki til þeirra barna sem enn eru í landinu. Heimsbyggðin öll verður að sameinast um þá kröfu að átökunum ljúki svo við getum komið nauðsynlegri hjálp til barna í Sýrlandi.

„Hægt er að leggja málefninu lið með því að taka þátt í undirskriftasöfnun á netinu eða með því að lýsa yfir stuðningi á twitter og nota alþjóðlega auðkennið #stopkilling.

Barnaheill – Save the Children starfa nú á landamærum Sýrlands og Líbanons annars vegar og Jórdaníu hins vegar. Þar hefur verið komið upp öruggum leiksvæðum auk þess sem unnið er með skólum og kennurum við að hjálpa börnum sem gengið hafa í gegnum mjög erfiða lífsreynslu. Samtökin eru reiðubúin að halda inn í Sýrland, þegar aðgangur hefur verið tryggður.