Ný skýrsla Barnaheilla um fátækt er komin út

Uppræta þarf fátækt og tryggja rétt allra barna til velferðar og þátttöku í samfélaginu. Á Íslandi er engin skilgreining til á fátækt meðal barna né opinber stefna eða áætlun um að uppræta fátækt á meðal barna. Það kemur fram í skýrslu um fátækt barna sem Barnaheill – Save the Children gefa út í dag.

Setja þarf mælanlega og tímasetta stefnu og aðgerðaáætlun um að uppræta fátækt og félagslega einangrun. Sú stefna og aðgerðaáætlun þarf að taka mið af þörfum barna og réttindum, ekki síst þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Öll börn eiga jafnan rétt á að tilheyra því samfélagi sem þau búa í og taka þátt í því sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Styrkja þarf þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra ekki síst þær sem standa höllum fæti af ýmsum ástæðum.

 Barnaheill hafa frá árinu 2013 tekið þátt í vinnu Evrópuhóps Save the Children gegn fátækt meðal barna. Tryggjum að ekkert barn í Evrópu þurfi að búa við fátækt eru skilaboð frá Evrópuhópnum í skýrslunni er nefnist Guarnteeing Children's Future: Ending Child Poverty and Social Exclusion in Europe.

Fjórtán ríki í Evrópu tóku þátt í vinnu við skýrsluna, bæði lönd innan Evrópusambandsins og utan þess, þar á meðal Barnaheill - Save the Children á Íslandi.

Í skýrslunni er sérstaklega skoðuð þátttaka barna í leikskólum (Early childhood education and care), skólamáltíðir og næring barna, þátttaka í tómstundum, heilsugæsla og húsnæðismál barna og fjölskyldna þeirra. Skoðuð er sú þjónusta sem börnum stendur til boða og kostnaður fjölskyldna.

Ísland er eina þátttökulandið sem hefur enga skilgreiningu á fátækt meðal barna. Jafnframt er engin opinber stefna eða áætlun á Íslandi um að uppræta fátækt meðal barna, né þátttöku þeirra.

Þeir hópar barnafjölskyldna á Íslandi sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun eru einstæðir foreldrar, fjölskyldur með lágar tekjur, fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem foreldri er á örorkubótum, flóttabörn og börn í fjölskyldum sem búa við erfiðar félaglegar aðstæður.

90% foreldra á örorkubótum á Íslandi segja bæturnar ófullnægjandi, 80% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, 22% segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börn sín og 19% ekki geta greitt fyrir frístund eða tómstundir barna sinna.

Kostnaður við húsnæði er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldna á Íslandi og búa margar þeirra við óöryggi, þröngan húsnæðiskost og í óviðunandi húsnæði.

Við þessu þarf að bregðast. Ekkert barn á að þurfa að alast upp við ótryggar húsnæðisaðstæður.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fylgjast með stöðu barna og hafa áhyggjur af því að ójöfnuður meðal barna aukist vegna atvinnuleysis sökum Covid–19. Í janúar 2021 var atvinnuleysi 8,2% samanborðið við 4,8% í janúar 2020. Skráð atvinnuleysi var þó komið niður í 5% í september 2021, en of snemmt er að segja til um hvernig þróunin verður og áhrifin á börn og barnafjölskyldur. Atvinnuleysi hefur sérstaklega mikil áhrif á lágtekjufjölskyldur og þær eiga því helst á hættu að lenda í fátækt og félagslegri einangrun.

Áhrif Covid–19 á andlega heilsu barna og aðstæður í fjölskyldum er töluverð. Tilkynningar til barnavernda á Íslandi um vanrækslu jókst um 20% frá mars 2020 til mars 2021, tilkynningar um ofbeldi um 23%, áhættuhegðun barna um 3% og gruns um að líf og heilsa ófæddra barna væri í hættu um 68%.

Börn eru sá samfélagshópur sem hve viðkæmastur er fyrir þeim áföllum og átökum sem dynja á þjóðum og samfélögum og líða mest til skemmri og lengri tíma. Covid–19 faraldurinn hefur reynst börnum og fjölskyldum þeirra erfiður, ekki síst vegna aukins atvinnuleysis og skorts á þjónustu sem lá niðri meðan á farandrinum stóð, s.s. lokun skóla. Þeir hópar barna sem hafa orðið verst úti eru börn á flótta, börn einstæðra foreldra og börn sem alast upp í barnmörgum fjölskyldum, börn í lágtekjufjölskyldum, börn úr þjóðernishópum sem eru í minnihluta, börn með fötlun og börn sem búa við ótryggar heimilisaðstæður eða ófullnægjandi húsnæðisaðtæður svo og börn sem búa á stofnunum.

Barnaheill – Save the Children í Evrópu leggja áherslu á mikilvægi þess að börn séu höfð með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um hag þeirra og líf. Slíkt er sjaldnast gert. Engin stefna er á Íslandi varðandi þátttöku barna.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á að lifa, þroskast, njóta heilsugæslu, menntunar og tómstunda. Ef við teljum að hvert barn eigi að hafa tækifæri til að njóta hæfileika sinna og þroska styrkleika, óháð bakgrunni eða aðstæðum, þá þarf markvissa stefnumótun, tryggja að öll börn njóti þeirrar þjónustu sem í boði er, uppræta vítahring fátæktar og fjárfesta í börnum.

12,7% barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun, næst lægst á eftir Danmörku þar sem 12,4% barna eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun og er Danmörk því með hlutfallsega minnsla fátækt meðal barna af þeim 14 löndum sem tóku þátt í gerð skýrslunnar. Albanía mælist með mestu fátækt meðal barna þar sem 49,4% barna býr við fátækt, í Finnlandi eru það 15% barna og í Svíþjóð 20% barna. Meðaltal Evrópusambandsríkja er 23,7%. Í mörgum tilfellum eiga tölurnar við árið 2019, þar sem nýrri tölur fengust ekki alls staðar frá. Þar sem nýrri tölur fengust, kom í ljós að fátækt jókst víðast á milli ára vegna áhrifa Covid–19. Ástæðan er ekki síst atvinnuleysi og því í kjölfarið erfiðleikar með að standa í skilum með reikninga og sjá fjölskyldu sinni farboða. Þó minnkaði minnkaði fátækt í Danmörku, Svíþjóð og Litháen frá 2019 til 2020. Ekki eru tölulegar upplýsingar til fyrir Ísland árið 2020.

Hér má sjá þá hópa sem mest eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun:

Mismunandi er eftir löndum hvaða þættir eru mest áberandi. Í Finnlandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Hollandi og Spáni eru það börn á flótta eins og fram kemur í fyrstu súlunni. Hætturnar á fátækt aukast til muna ef einnig er um að ræða einstætt foreldri.

Í meira en helmingi landanna eru þau börn sem eiga einstæða foreldra, foreldra sem fá bætur frá opinberum aðilum og foreldra með lágar tekjur í mikilli hættu á að búa við fátækt og félaglega einangrun og gildir það einnig hér á landi.

Börn með einhvers konar fötlun eru einnig mjög berskjölduð, búa gjarnan við fátækt og félagslega einangrun þar sem fjölskyldan fær ekki nægan stuðning til að mæta þörfum barnsins, hvorki fjárhagslegan né félagslegan. Þessi börn einangruðust gjarnan enn Meira í Covid–19 vegna skertrar þjónustu, lokunar á úrræðum, skort á tækjum og kennslu svo og stuðningi.

Helstu niðurstöður og áherslur eru eftirfarandi:

Leikskóli

Að öll börn hafi aðgengi að gæðaþjónustu í leikskólum frá því að fæðingarorlofi lýkur, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Setja þarf gæðastaðla sem og leggja áherslu á faglega þjálfun starfsfólks. Fylgjast þarf með þroska og atlæti barna frá fæðingu og styðja við þroska þeirra. Þroski barna og atlæti á fyrstu árum ævinnar skiptir miklu máli fyrir velferð þeirra. Því er sterkt leikskólastig ein forsenda þess að tryggja jöfnuð meðal barna og velferð þeirra. Á Íslandi er stærstur hluti barna í leikskóla. Árið 2019 sótti 97% barna frá tveggja til fimm ára leikskóli og 55% yngri en tveggja ára. Tryggja þarf jafnt aðgengi að gæðamenntun hvar sem þau búa og að öll hafi þau trygga leikskólavist eftir að fæðingarorlofi lýkur. Stefna skal að gjaldfrelsi leikskólastigsins og tryggja að börnum sem búa við fátækt eða aðrar erfiðar aðstæður sé aldrei meinaður aðgangur ef foreldrar greiða ekki gjaldið.

Menntun og jöfnuður

Að unnið sé gegn ójöfnuði í menntakerfinu og styðja börn sem á stuðningu þurfa að halda. Tryggja þarf rétt til ókeypis gæðamenntunar án hindrana Sérstaklega þarf að huga að börnum á flótta, börnum með annað móðurmál en íslensku, börnum sem búa við erfiðar aðstæður á heimili, börnum í dreifbýli og fötluðum börnum. Menntun á að tryggja börnun jöfn tækifæri en svo er ekki raunin vegna mismunandi stöðu barna. Enn er hluti barna í sérskólum eða sérdeildum þrátt fyrir áætlanir um fulla þátttöku allra barna í hinu almenna skólakerfi. Öll börn eiga þó að vera í grunnskóla, enda skólaskylda á því skólastigi á Íslandi. Víða í Austur- Evrópu er misbrestur á því að börn sem búa við erfiðar aðstæður njóti skólagöngu. Á Íslandi er 0,03% barna í sérskólum, en víða eru sérdeildir í hinum almennu skólum. Ef foreldrum finnst börn þeirra ekki fá nægilega þjónustu og stuðning innan hins hefðbundna skólakerfis á Íslandi þurfa þeir að leita þjónustu utan þess og þá á eigin kostnað. Ekki eru slíkt útgjöld á allra færi. Börn með annað móðurmál en íslensku eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og brottfall úr framhaldsskóla meðal þeirra er mun hærra en þeirra sem eru með íslensku sem móðurmál.

Kostnaður við menntun

Útrýma þarf öllum aukakostnaði við menntun barna. Í flestum löndunum sem tóku þátt er grunnmenntun gjaldfrjáls en oftast margs konar auka kostnaður sem ekki allar fjölskyldur eiga auðvelt með að standa straum að. Árið 2015 fóru Barnaheill að þrýsta á stjórnvöld hér á landi að fella niður gjöld af skólagögnum svo sem ritföngum í grunnskóla. Segja má að það hafi borið árangur og nú útvegi langflestir grunnskóla á Íslandi slík gögn. Samt sem áður er ýmiss falinn kostnaður í grunnskóla, þar má nefna ferðir og skemmtanir á vegum foreldrafélaga skólanna og jafnvel skemmtanir skóla, s.s. árshátíðir. Ferðir og skemmtanir á vegum skóla eiga að vera gjaldfrjálsar. Einnig þarf að setja reglur um slíkan kostnað hjá félögum tengdum skólanum s.s. foreldrafélögum. Börn þurfa jafnframt að greiða fyrir frístund að skóla loknum og skólamatinn og er gjaldið mismunandi eftir sveitarfélögum. Börn sem þurfa að ferðast í skólabílum til og frá skóla á Íslandi þurfa ekki að greiða fyrir það gjald, en hin langa vegalengd sem sum þurfa að fara er mikið álag fyrir börnin. Framhaldsskólinn er ekki gjaldfrjáls og mikill kostnaður sem fylgir honum s.s. vegna kaupa á námsgögnum. Skoða þarf að gera kennslugögn rafræn og tryggja öllum gjaldfrjálst aðgengi að þeim. Jafnframt þarf að minnka brottfall úr framhaldsskóla sem enn er allt of hátt. Sumarfrí barna í grunnskólum er 12 vikur auk ýmissa frídaga á skólaárinu. Foreldrar þeirra eiga hins vegar einungis að meðaltali 6 vikna frí á ári hverju. Slíkur mismunur veldur miklu álagi á fjölskyldur og kostnaði við að kaupa úrræði fyrir börn sín. Mikilvægt er að þetta sé skoðað heildstætt með velferð barna í huga.

Tómstundir

Tryggja aðgang allra barna að íþróttum, tómstundum og menningarstarfi fyrir börn og ungmenni, eins og þau eiga rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Slík menntun er mikilvæg öllum börnum og þátttaka allra barni í slíku starfi stuðlar að jöfnuði. Ryðja þarf öllum þeim hindrunum úr vegi sem koma í veg fyrir þátttöku barna. Þar má nefna búsetu, fötlun, efnahag og félagslegar aðstæður. Jafnframt þarf að tryggja að tómstundir sé á forsendum barnanna óháð stöðu þeirra eða getu. Í tómstundum finna börn gjarnan áhugasvið sín og hæfileika sem þau rækta, þau kynnast menningu og listum, efla með sér samkennd og samvinnu og eru hluti af þeirri heild sem hópurinn eða félagsskapurinn er.

Víðast hvar er mikill ójöfnuður þegar kemur að þátttöku barna í íþróttum, tómstundum og menningu. Á Íslandi er það oftast sökum fjárhagslegrar stöðu sem börn taka ekki þátt. Flest sveitarfélög eru með frístundastyrki sem þó duga ekki fyrir öllum kostnaði, hvorki við æfingjagjöld eða annan kostnað. Sumar tómstundir eru mjög kostnaðarsamar og sannarlega ekki á færi allra fjölskyldna að kosta börn sín í þær. Umframgjöld við æfingar, eru búnaður, ferðir og fleira. Því má segja að ekki öll börn hafi tækifæri til að kynnast hæfileikum sínum og rækta þá. Á Íslandi er þátttaka barna í íþróttum og tómstundum nokkuð mikil, en flestar tómstundir þurfa börn að iðka eftir venjulegan vinnudag, þ.e. eftir kl 16 á daginn. Álag á mörg börn er því mikið. Jafnframt eru tómstundir greinaskiptar frá unga aldri í flestum tilfellum og þurfa börn því gjarnan að velja eina grein í einu og svo skipta þau gjarnan á milli. Sum finna sig, önnur ekki og hætta alveg. Barnaheill leggja áherslu á að börn allt að 10 ára aldri a.m.k. geti lokið tómstundum sínum fyrir kl 16 á daginn og tómstundagreinar séu samþættar a.m.k. fyrstu árin meðan börn eru að læra að þekkja styrkleika sína og áhugasvið. Tryggja þarf aðgengi allra og að reglur og viðmið verði sett um aukakostnað og vinnu umfram skipulagðar æfingar s.s. ferðir.

Skólamatur

Tryggja þarf ókeypis skólamáltíðir fyrir börn í viðkvæmri stöðu í öllum skólum frá leikskóla- til framhaldsskólanáms og hafa gæðastaðla til að tryggja næringaríkar máltíðir. Það er mikill ávinningur í því að veita börnum gjaldfrjálsan næringarríkan skólamat. Það tryggir að öll börn fái a.m.k eina næringaríka máltíð á dag og þau læra að borða alls kyns mat. Sum börn njóta þess ekki á heimilum sínum. Allir íslenskir skólar bjóða upp á mat en er hann sjaldnast gjaldfrjáls. Tryggja þarf að ekkert barn þurfi frá að hverfa í matsal því matarreikningur hafi ekki verið greiddur. Slíkt á jafnframt við í framhaldsskólum. Víða fá börn ekki næringarríkan mat í skólafríum og því er víða í löndum verið að skoða hvernig hægt er að tryggja það. Meðan skólar og önnur þjónusta lá niðri vegna Covid-19 var því víða mikill misbrestur á að öll börn fengju næringarríkan mat. Jafnvel þarf að skoða að banna auglýsingar um óhollan mat fyrir börn.

Heilsugæsla

Veita þarf öllum börnum og unglingum óheftan aðgang að ókeypis heilsugæslu, þar á meðal heilsueflingu, skimun og fyrirbyggjandi þjónustu, endurhæfingu og geðheilsu. Covid-19 faraldurinn hefur gert það að verkum að velferð barna hefur minnkað í öllum þeim löndum sem tóku þátt. Á Íslandi er grunnheilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls fyrir börn svo og tannlæknaþjónusta að mestu, en ekki tannréttingar og eru þær mjög kostnaðarsamar. Mæðravernd og ungbarnavern er sinnt vel og gjaldfrjáls, svo og bólusetningar barna. Mæður sem búa í dreifbýli þurfa þó um langan veg að fara til að leita sér og börnum sínum þjónustu. Fullkomin spítalaþjónusta er einungis í Reykjavík. Greiðsluþátttaka fjölskyldna fyrir heilbrigðisþjónustu barna hefur dregist mjög saman á síðustu árum og vægi heilsugæslunnar aukist. Tryggja þarf aðgengi allra barna að sem bestri geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst með forvörnum og stuðningi við hæfi innan skólakerfisins. Með forvörnum og stuðningi er hægt að minnka skaðann og koma í veg fyrir margs konar áföll og veikindi síðar meir. Langir biðlistar fyrir þjónustu eru óásættanlegir og skoða þarf hvort greiningar þurfi að vera forsenda fyrir ýmiss konar þjónustu. Hvað varðar velferð barna í Covid-19 telja 56% barna á aldrinum14-15 ára á Íslandi að líðan þeirra hefði ekki versnað á árinu 2020 og 7% sagði hana hafa batnað. Í framhaldsskóla hafði hlutfall þeirra ungmenna sem sögðu heilsu sína góða eða mjög góða lækkað um 16% frá 2018 og margir töldu sig einmana. Minni röskun á skólastarfi í leik- og grunnskólum en í framhaldsskólum meðan á Covid–19 stóð gæti útskýrt það að hluta.

Íslensk stjórnvöld hafa varið 600 milljónum í ýmis verkefni til að bæta geðheilbrigði barna í tengslum við Covid–19.

Fjölskyldur fatlaðra og langveikra barna búa við mikið álag og telja sig oft ekki fá þjónustu sem skyldi. Erfitt sé að fá upplýsingar um stuðning og berjast þarf fyrir honum.

Næring

Tryggja jafnan aðgang að heilsusamlegri næringu fyrir fjölskyldur í viðkvæmum aðstæðum og skapa umhverfi sem hvetur börn og foreldra til heilbrigðs mataræðis. Mörg börn njóta ekki næringarríkrar fæðu á þeim dögum sem skóla nýtur ekki við, svo sem í sumarfríum. Algjörlega er óásættanlegt að barnafjölskyldur þurfi að leita til hjálparsamtaka eftir matargjöfum eins og víða er. Lokanir á þjónustu vegna Covid–19 gerði það að verkum að mörg börn fengu ekki næringaríkan mat í skóla og annari þjónustu og matarkostnaður fjölskyldna hækkaði. Það skapaði mikið álag á þær fjölskyldur sem búa við fátækt og erfiðar aðstæður. Í öllum löndunum má sjá óheilbrigðar matarvenjur meðal barna, börn neyta ruslfæðis, borða lítið af ávöxtum og grænmeti og drekka sykraða drykki. Þetta hefur leitt til aukins fjölda barna sem þjáist af offitu og ofþyngd. Heimsfaraldurinn leiddi af sér enn óheilbrigðari matarvenjur og minni hreyfingu. Á Spáni er 40,6% barna í yfirþyngd og á Ítalíu 20,4% Á Íslandi eru 27% barna í yfirþyngd og þar af þjást 6,5% barna af offitu. Þriðjungur barnanna býr í dreifbýli. Helstu ástæður ofþyngdar og offitu meðal barna eru óheilnæmur matur, hreyfingaleysi, hátt verð á hollum mat, slæmar matarvenjur og að foreldrar séu lítið heima við.

Húsnæðismál

Öruggt og heilsusamlegt húsnæði er ein helsta forsenda velferðar og til að komast út úr fátækt. Samt sem áður búa margar fjölskyldur við mikið óöryggi, dýran húsakost, þröngt húsnæði og jafnvel í heilsuspillandi húsnæði. Efla þarf félagslegan stuðning og félagslegt húsnæði og forgangsraða barnafjölskyldum til Ð hafa aðgengi að húsnæði. Of stórt hlutfall ráðstöfunartekna fer í húsnæðiskostnað á Íslandi. 25% leigjenda á Íslandi borga meira en 50% ráðstöfunartekna sinna í leigu og 10% verja meira en 70% ráðstöfunartekna sinna. Styrkja þarf félagslega húsnæðiskerfið og samræma á milli sveitarfélaga, bæði hvað varðar aðgengi og kostnað fjölskyldna. Langur biðlisti er eftir félagslegu húsnæði víðast hvar og tekjuviðmið eru mjög lág til að eiga kost á slíku. Engar tölulegar upplýsingar eru til á Íslandi um heimilislaus börn né barnafjölskyldur. Fjölskyldur reyna yfirleitt að fá inni hjá fjölskyldum eða vinum ef þær missa húsnæði sitt. Ekki er leyfilegt að skrá börn án aðseturs. Tryggja þarf að enginn sé heimilislaus og að börn og fjölskyldur þeirra búi við tryggan og heilsusamlegan húsnæðiskost. Aldrei skal sundra fjölskyldum vegna húsnæðisleysis. Stundum tekur barnavernd við umsjón barna ef fjölskyldan er heimilislaus, ekki síst ef foreldrar eiga við áfengis- og/eða vímuefnavanda að stríða.

Á hverju ári týnast 80-100 börn. Þau eru þá heimilislaus, búa þá jafnvel á götunni. 50% þessara barna eru að týnast í fyrsta sinn meðan 50% hafa týnst áður. Sum þeirra flýja vegna erfiðra heimilisaðstæðna og ofbeldis, önnur eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Að auki þarf að takast á við félagslega útskúfun ákveðinna hópa og rjúfa félagslegan arf fátæktar og veikrar stöðu milli kynslóða. Því þarf að vera fjölskyldustefna í hverju landi þar sem áhersla er á:

  • Að takast á við orsök fátæktar og ójöfnuðar og koma þannig í veg fyrir að börn búi við og alist upp við fátækt.
  • Að efla og tryggja virka þátttöku barna í ákvarðanatöku (börn þurfa að taka þátt þegar þau þróa og fylgjast með aðferðum og stefnu sem hefur áhrif á þau).
  • Að kynna ráðstafanir sem gera það kleift að aðlaga og/eða stytta vinnutíma foreldra að vinnutíma barna þeirra.
  • Tryggja sveigjanleika fyrir barna- og fjölskylduþjónustu.
  • Að tryggja framboð á störfum svo og góðar almannatryggingar.
  • Veita fjölskyldum upplýsingar, leiðbeiningar og um réttindi barna þeirra og aðgang að viðeigandi félagslegri, mennta- og heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum barna og fjölskyldna þeirra.

Setja þarf mælanlega og tímasetta stefnu og aðgerðaáætlun um að uppræta fátækt og félagslega einangrun. Sú stefna og aðgerðaáætlun þarf að taka mið af þörfum barna og réttindum, ekki síst þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Öll börn eiga jafnan rétt á að tilheyra því samfélagi sem þau búa í og taka þátt í því sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Aldrei skyldi aðskilja börn frá fjölskyldu sinni vegna fátæktar, s.s. vegna skorts á húsnæðisöryggi, heldur tryggja fjölskyldunni það öryggi.

Save the Children hafa veitt börnum í neyð og fjölskyldum þeirra aðstoð síðastliðin 100 ár og starfa samtökin í dag í 122 löndum. Samtökin trúa því að hvert einasta barn eigi rétt á framtíð og veita börnum í Evrópu, jafnt sem um allan heim, heilbrigða barnæsku, tækifæri á að læra og vernd gegn skaða. Á hverjum degi, jafnvel þegar hættuástand ríkir, gera Barnaheill–Save the Children allt sem þarf, til þess að breyta lífi barna og skapa þeim framtíð Verkefni Barnaheilla í Evrópu einblína á að veita stuðning við menntun, sálfræðiaðstoð og útbúnað (in- kind support) til að aðstoða börn og fjölskyldur sem búa við fátækt og félagslega útskúfun. Samtökin berjast fyrir stefnubreytingu, bæði innan Evrópusambandsins og innan einstakra ríkja Evrópu til þess að rjúfa hringrás barnafátæktar og félagslegrar útskúfunar.

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér