Út að borða - gegn ofbeldi á börnum

Erna Reynisdóttir skrifar um þau verkefni sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna að og snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Nú stendur yfir átakið Út að borða fyrir börnin í samvinnu við veitingastaði sem styðja þessi verkefni samtakanna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa starfað að réttindum og velferð barna á Íslandi og erlendis í 25 ár. Samtökin eru aðili að Save the Children International sem eru stærstu frjálsu félagasamtök í heiminum sem vinna eingöngu í þágu barna. Helstu áherslumál samtakanna eru að standa vörð um réttindi barna, baráttu gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og grunnmenntun.

Barnaheill vinna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi. Í þeirri baráttu leika forvarnir og fræðsla stórt hlutverk. Verkefni Barnaheilla, sem snúa að vernd barna gegn ofbeldi, felast m.a. í útgáfu fræðslu- og forvarnarefnis, rekstri ábendingarhnapps og síðast en ekki síst Vináttu – forvarnarverkefnis gegn einelti í leikskólum.

Þetta er líkaminn minn
Allt frá árinu 1998 hafa Barnaheill gefið út bókina Þetta er líkaminn minn en hún er liður í fræðslu- og forvarnarverkefni samtakanna um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi. Bókin er ætluð foreldrum og forráðamönnum barna á leikskólaaldri og fjallar um hvernig ræða má um jákvæða og neikvæða snertingu á opinn og óþvingaðan hátt. Hún er afhent foreldrum endurgjaldslaust, en það er starfsfólk heilsugæslunnar sem sér um afhendingu hennar við reglubundið eftirlit barnanna.

Ábendingarhnappur
Á barnaheill.is má finna ábendingarhnapp þar sem hægt er að tilkynna ólöglegt eða óviðeigandi efni á neti. Barnaheill hafa tekið þátt í alþjóðlegu verkefni um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi á neti í hartnær 14 ár. Á þeim tíma hafa borist vel á fimmta þúsund ábendingar til samtakanna um efni þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi eða sýnd á kynferðislegan hátt.

Barnið njóti vafans
Mikilvægt er að almenningur geri sér grein fyrir að samkvæmt lögum er skylt að tilkynna ef grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi, það sé vanrækt eða búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Barnaheill hafa beitt sér fyrir því að gefa út fræðslu- og kynningarefni til að vekja athygli á þessu. Um þessar mundir er að koma út nýr bæklingur um hvernig bregðast skuli við grun um að barn búi við slíkar aðstæður. Bæklinginn er hægt að panta á skrifstofu samtakanna og er honum dreift frítt til heilsugæslustöðva og skóla.

Vinátta
Barnaheill vinna að innleiðingu Vináttu sem er forvarnarverkefni gegn einelti og ætlað leikskólabörnum. Vinátta byggist á því að efla styrkleika einstaklingsins og um samskipti, samlíðan, vináttu og vellíðan. Vinátta stuðlar að almennri menntun leikskólabarna í hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lí