Vel heppnaður fundur Norrænna ábendingalína á Íslandi

Dagana 25. og 26. maí héldu Barnaheill – Save the Children á Íslandi norrænan fund ábendingalína.

Á fundinn mættu fulltrúar Red barnet – Save the Children í Danmörku og Pelastakaa lapset – Save the Children í Finnlandi. Auk þeirra starfa samtökin Ecpat í Svíþjóð með norræna samstarfshópnum, ásamt Barnaheillum. Öll eru samtökin meðlimir í INHOPE, alþjóðlegum regnhlífarsamtökum ábendingalína sem eiga samstarf um að eyða og fjarlægja allt efni sem birtir kynferðisofbeldi gegn börnum af netinu.

Ábendingalínur (hotlines) taka við tilkynningum um ólöglegt efni sem varðar börn á neti og eiga samstarf um vernd barna gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni á neti. Markmið ábendingalínanna er að láta fjarlægja efni af netinu sem birtir kynferðisofbeldi gegn börnum (Online Child Sexual Abuse and Exploitation) eða sýnir börn á kynferðislegan hátt.

Markmið fundarins var að eiga samtal um norræna löggjöf um vernd barna gegn kynferðisofbeldi á neti og gera samanburð á milli ríkja, í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld ríkja um bætta löggjöf.

Meðal gesta á fundinum voru Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, Eiríkur Guðni Ásgeirsson, lögreglufulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum og Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd. Öll fluttu þau áhugaverð erindi sem varða vernd barna gegn kynferðisofbeldi á neti. Eiríkur og Kolbrún fluttu erindi um rannsókn mála sem þau höfðu til meðferðar og leiddu til sakfellingar fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum, m.a. á netinu. Þess má geta að tilkynning til Ábendingalínu Barnaheilla varð upphafið að rannsókn annars málanna sem þau fjölluðu um.

Jafnframt sóttu fundinn fulltrúar frá INHOPE, þau Denton Howard, framkvæmdastjóri samtakanna og Abby Roberts, verkefnastjóri.

Barnaheill hafa rekið ábendingalínu frá árinu 2001 og hafa frá upphafi móttekið yfir 10 þúsund tilkynningar og af þeim hafa um 3300 innihaldið kynferðisofbeldi gegn börnum. Barnaheill eiga samstarf við Ríkislögreglustjóra við skoðun og greiningu myndefnis.

F.v. Denton Howard, framkvæmdastjóri INHOPE, Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, Kolbrún Baldursdóttir, varahéraðssaksóknari og Eiríkur Guðni Ásgeirsson, lögreglufulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum