Velferð barna í nútíð og framtíð

Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri innlendra- og Evrópuverkefna hjá Barnaheillum er höfundur g…
Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri innlendra- og Evrópuverkefna hjá Barnaheillum er höfundur greinarinnar.

Fyrir tæpum þrjátíu árum var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn á að tryggja börnum heims öryggi og vernd, góð lífsskilyrði og tækifæri. Sáttmálinn á jafnframt að tryggja börnum sérstök réttindi umfram þá fullorðnu, ekki síst þar sem börn eru berskjaldaðri en þeir fullorðnu og mikilvægt að búa þeim sem best umhverfi til að þroskast. Mikið hefur áunnist í málefnum barna á undanförnum áratugum og heimurinn batnandi fer að mörgu leyti. Þó er víða langt í land og á það ekki síst við um velferð þeirra barna sem búa við fátækt og við stríðsátök. Þar er mikið verk að vinna og mikilvægt að þjóðir heims leggist á eitt um að tryggja öllum börnum frið og líf þar sem velferð þeirra og réttindi eru tryggð. Annað er óásættanlegt.

Þegar eitt verkefni er að baki og markmiðum náð birtast oft önnur verkefni sem menn óraði jafnvel ekki að standa frammi fyrir. Þar ber helst að nefna afleiðingar loftslagsbreytinga og ýmiss konar mengunar á börn. Veðurfarsbreytingar, hækkun yfirborðs sjávar, örplast í lífríkinu, ofnýting auðlinda og sóun mun hafa áhrif á heilsu og velferð barna. Börn nútíðar og framtíðar munu þurfa að takast á við afleiðingar gjörða okkar sem nú eru fullorðin. Við þurfum öll sem eitt að bretta upp ermar og vinna hratt til þess að börnin okkar taki við sem bestu búi. Við sem erum að vinna með börnum eða að málefnum þeirra ættum sérstaklega að taka til hendinni, því að velferð barna, mannréttindi og umhverfismál eru hliðar á sama teningnum og órjúfanlegir þættir. Víða er þó spyrnt við fótum og eru skólar landsins margir hverjir í fararbroddi og öðrum til fyrirmyndar hvað varðar vinnu að umhverfismálum.

Alþjóðasamtök Save the Children hafa sett vinnu gegn loftslagsbreytingum sem eitt af sínum markmiðum og Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa sett sér umhverfisstefnu með það að markmiði að leggja sín lóð á vogaskálar til bætts umhverfis og velferðar barna til framtíðar. Samtökin leitast í öllu sínu starfi við að lágmarka neikvæð áhrif á fólk, umhverfi og náttúru.

Barnaheill vilja hvetja alla þá sem er annt um velferð barna að samþætta sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð inn í allt sitt starf. Einungis þannig munum við skila af okkur góðu búi og vinna að velferð barna til langs tíma.

Margrét Júlía Rafnsdóttir