Velferðarsjóður barna á Íslandi hlýtur viðurkenningu Barnaheilla

Viðurkenningu Barnaheilla fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra hlýtur að þessu sinni Velferðarsjóður barna á Íslandi. Viðurkenningin var veitt í morgun við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Stjórn Barnaheilla ákvað árið 2002 að veita slíka viðurkenningu árlega og valdi til þess afmælisdag Barnasáttmálans, 20. nóvember. Á þeim degi árið 1989 var sáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Barnaheill, Save the Children á Íslandi, eru alþjóðleg hjálpar- og barnaréttarsamtök sem hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Áður hafa Barnahús og Hringurinn hlotið viðurkenningu Barnaheilla.


vidurkenning2004Frá afhendingu viðurkenningar Barnaheilla; f.v. Íris Ósk Traustadóttir, varamaður í stjórn Barnaheilla, Sól Guðmundsdóttir, átta ára nemandi við Langholtsskóla, Guðbjörg Björnsdóttir, formaður Barnaheilla, og Kári Stefánsson frá Velferðarsjóði barna á Íslandi.

Velferðarsjóður barna á Íslandi var stofnaður í febrúar árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Sjóðurinn á nú um 600 milljónir króna – en stofnfé hans, 500 milljónir króna, var gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til íslenskra barna. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að hlúa að hagsmunamálum og velferð barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála, og samtaka og félaga sem hafa velferð og lækningar barna að megintilgangi. Á hverju ári er stjórninni heimilt að ráðstafa allt að 12% af uppreiknuðum höfuðstól sjóðsins til ýmissa verkefna. Alls hafa verið veittar um 300 milljónir króna í styrki til verkefna er efla velferð barna á Íslandi. Stærsta verkefni sjóðsins til þessa er uppbygging hvíldar- og hjúkrunarheimilisins Rjóðurs fyrir langveik börn sem var tekið í notkun í mars síðastliðnum en ríkið sér um rekstur þess. Sjóðurinn hefur styrkt fjölda annarra verkefna er heyra undir heilbrigðismál.
Helsta verkefni Velferðarsjóðsins á sviði fræðslu- og menntamála er Mentorverkefnið Vinátta sem hófst árið 2001 auk styrkja til margra fræðsluverkefna. Þá hefur sjóðurinn styrkt börn sem búa við fátækt með því að veita þeim tækifæri til að taka þátt í hvers konar sumarnámskeiðum, til fatakaupa o.fl. en styrkjunum var úthlutað í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Auk þess hafa Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar fengið styrki til sinna starfa.
Stjórn Velferðarsjóðsins er skipuð Bjarna Ármannssyni, sem er fulltrúi atvinnulífsins og formaður stjórnar, Kára Stefánssyni, fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar ehf., og Sólveigu Guðmundsdóttur, fulltrúa heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Fagráð sem skipað er sjö fulltrúum auk framkvæmdastjóra gerir tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja. Það er skipað Ingibjörgu Pálmadóttur, Valgerði Ólafsdóttur, Þórólfi Þórlindssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Elínu Þorgeirsdóttur, Þórkötlu Aðalsteinsdóttur, Grétari H. Gunnarssyni og Rósu Guðbjartsdóttur.