Verndum heila kynslóð - ný skýrsla Barnaheilla

Kórónuveiruheimsfaraldurinn hefur haft alvarlegastar afleiðingar fyrir börn sem búa við fátækt. Fátækar fjölskyldur hafa orðið fyrir mestu tekjutapi og hafa átt í erfiðleikum með að útvega mat og fullnægja öðrum grunnþörfum barna sinna, á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun. Einnig eru þessi börn berskjölduð fyrir heimilisofbeldi.

Í dag birtu Barnaheill – Save the Children nýja skýrslu, Verndum heila kynslóð eða Protect a Generation, þar sem gögnum um áhrif kórónuveirufaraldursins á börn var safnað,  þátttakendur í rannsókninni voru 25.000 börn og foreldrar þeirra  frá 37 löndum. 

Samkvæmt skýrslunni hefur kórónuveirufaraldurinn haft slæm áhrif á menntun barna, þá sérstaklega þeirra sem búa við fátækt og hefur faraldurinn aukið bilið á milli ríkra og fátækra barna. Á þeim sex mánuðum sem heimsfaraldurinn hefur herjað á lönd úti um allan heim hafa fátækustu börnin haft skert aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, mat, hreinu vatni og hreinlætisvörum.

Í skýrslunni kemur fram að:

- 66% barna úti um allan heim ekki aðgang að námsefni eða kennurum sínum á meðan að skólar voru lokaðir. Skólar eru enn lokaðir víðsvegar um heim.

- 80% barna sögðust hafa lært lítið sem ekkert á meðan skólinn var lokaður.

- Færri en 1% barna frá fátækum heimilum hefur aðgang að internetinu til þess að sinna námi.

- 93% heimila sem misstu meira en helming tekna höfðu skertan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

- Heimilisofbeldi jókst um meira en helming á meðan lokun skóla stóð yfir.

- Tekjulitlar fjölskyldur hafa orðið fyrir meiri tekjuskerðingu en aðrar fjölskyldur.

Samkvæmt gögnum Barnaheilla hafa börn sem koma frá fátækum fjölskyldum ekki aðeins takmarkaðri aðgengi að menntun, heldur einnig að mat, hreinlætisvörum og heilbrigðisþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Níu af hverjum tíu heimilum sem misstu yfir helming tekna sinna vegna heimsfaraldursins greindu frá erfiðleikum við að sækja heilbrigðisþjónustu. 45% aðspurðra, frá fátækum heimilum, sagðist eiga í vandræðum með að greiða fyrir læknisþjónustu.

Priscovia er ein af fjölmörgum börnum sem býr við fátækt. Hún er 17 ára gömul og býr í Sambíu. Hún biðlar til stjórnvalda þar í landi að grípa inn í.

Við biðlum til stjórnvalda að setja meira fjármagn í skólakerfið og menntun barna. Það er nauðsynlegt að við getum haldið áfram að læra heima hjá okkur fyrst að skólar eru lokaðir. Stjórnvöld eiga að útfæra kennsluaðferðir í gegnum útvarp, sjónvarp eða internetið fyrir þá sem eiga tölvu. Þau verða að tryggja að börn á afskekktum svæðum og þau sem koma frá fátækum fjölskyldum fái tækifæri til þess að mennta sig. Við viljum fá farandsbókasöfn í okkar samfélög svo við getum haldið áfram að lesa.

Samkvæmt Barnaheillum ríkir neyðarástand þegar kemur að menntun barna og telja samtökin að um 9,7 milljónir barna muni ekki snúa aftur í skóla. Stúlkur verða fyrir meiri áhrifum en strákar vegna faraldursins en 63% stúlkna sögðust vinna fleiri heimilisstörf en áður, samanborið við 52% drengja. Hætta er á að fjöldi barna leiðist út í barnaþrælkun eða barnahjónabönd vegna ástandsins.

Heimsfaraldurinn hefur einnig haft áhrif á andlega líðan barna samkvæmt skýrslunni en 83% barna segja að andleg líðan hafi versnað. Dayana, 15 ára stúlka frá El Salvador, segir að fólk sé sorgmæddara út af ástandinu.

Fólk er sorgmæddara í dag en áður vegna þess hvernig faraldurinn hefur breytt lífi okkar. Við erum ekki að lifa okkar eðlilega lífi. Það er erfitt. 

Dayana er ein af milljónum barna sem ekki hafa geta sótt skóla vegna lokunar og fær hún kennsluleiðbeiningar frá kennaranum sínum gegnum snjallforritið WhatsApp en hún segir mjög erfitt að skilja skilaboðin þegar þau berast í gegnum smáskilaboð.

Framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, Inger Ashing, segir að misrétti í heiminum hafi aukist vegna Covid-19.

Fátækir hafa orðið fátækari og hefur aðgengi þeirra að grunnþörfum á borð við mat, vatn, heilbrigðisþjónustu og menntun verið takmarkað. Heimurinn þarf að bregðast við svo að fjölskyldur úti um allan heim geti fjárfest í lífi barna sinna til að þau geti nærst og menntað sig. Þarfir barnanna þurfa að ganga fyrir í öllum áætlunum sem miða að því að byggja heiminn upp aftur - Til að þau þurfi ekki að líða mest fyrir faraldurinn.

Barnaheill hvetja stjórnvöld úti um allan heim til að tryggja að þau börn sem eru utan skóla hafi aðgang að fjarnámsefni og geti haldið áfram að mennta sig þrátt fyrir lokanir á skólum. Samkvæmt 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á grunnmenntun og ber aðildarríkjum skylda til að koma á skólaskyldu, gera ráðstafanir sem stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr brottfalli nemenda.

 

Dorica*, 37 ára ásamt syni sínum Joshua 2 ára frá Simbabve.

Bæði Dorcia og maðurinn hennar hafa misst vinnuna og eiga

erfitt með að kaupa mat fyrir öll sjö börnin sín.