Viðurkenning Barnaheilla 2008 var veitt samtökunum Blátt áfram

Barnaheill, Save the Children, á Íslandi veittu í dag, á 19 ára afmælisdegi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samtökunum Blátt áfram viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um vernd barna gegn öllu ofbeldi, líkamlegu andlegu og kynferðislegu og vernd gegn vanrækslu.

Íslenskt samfélag og alþjóðasamfélagið hafa smátt og smátt verið að vakna til vitundar um að ofbeldi gegn börnum sé ætíð óásættanlegt. Ein birtingarmynd ofbeldis er kynferðislegt ofbeldi gegn börnum þar sem barnið verður fyrir skaða sem sem seint eða ekki fæst bættur. Samtökin Blátt áfram hafa verið fremst í flokki þeirra sem hafa varpað hulunni af þeirri leynd sem hefur hvílt á því alvarlega ofbeldi sem kynferðsilegt ofbeldi gegn börnum er. Samtökin hafa opnað umræðuna, stuðlað að vitundarvakningu og verið virk í forvarnarstarfi. Blátt áfram voru stofnuð af systrunum Sigríði og Svövu Björnsdætrum árið 2004 og hafa á þessum fáu árum velt grettistaki í þessum málum með umræðu og fræðslu.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu á þessum degi til að vekja athygli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Viðurkenningin er veitt einstaklingum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna, og hafa með starfi sínu bætt réttindi og stöðu barna. Barnaheill, Save the Children, eru alþjóðleg mannréttinda- og hjálparsamtök sem vinna í þágu barna og hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Hulda Margrét Erlingsdóttir og Ívar Eiðsson fulltrúar í ungmennaráði Barnaheilla afhentu Sigríði Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Blátt áfram viðurkenninguna.