Vinátta á alltaf við

Blær er vinur okkar allra.
Blær er vinur okkar allra.

Mikilvægt er að hlúa sérstaklega að líðan barna og ungmenna þessa dagana. Allir fjölmiðlar eru stútfullir af upplýsingum um Kórónaveiruna og það fer ekki fram hjá börnunum. Þau meðtaka fyrirsagnir og draga ályktanir út frá því sem þau heyra. Mikilvægt er að ræða um veiruna við börnin og hlusta á þær áhyggjur sem þau kunna að hafa.

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti og er notast við efnið í um 60% íslenskra leikskóla. Um 20 grunnskólar hafa verið í tilraunakennslu með grunnskólaefni verkefnisins sem mun standa öllum skólum til boða í vor. Námsefnið er ætlað börnum á aldrinum 0-9 ára en er ekki síður fyrir kennara og foreldra.

Gildi Vináttu – Virðing, umburðarlyndi, umhyggja og hugrekki eiga svo sannarlega við þessa dagana og gott er að hafa þau til hliðsjónar nú sem aldrei fyrr. Þrátt fyrir skert skólastarf er hægt að vinna áfram með Vináttu á marga ólíka vegu. Á Facebooksíðu Vináttu eru ýmsar hugmyndir um hvernig hægt sé að vinna með Vináttu, hvort sem er heima eða í skólanum og hvetjum við ykkur til að fylgjast með því.