Vinátta í skólabyrjun

Að tilheyra

Nú hallar sumri og líf barna og fullorðinna er að komast í fastar skorður eftir sumarfrí. Flest börn hitta á ný félagana eftir einhverra vikna aðskilnað og önnur eru á tímamótum að hefja nám í leik- eða grunnskóla eða að skipta um skóla.

Þá er gott að hafa hugmyndafræði og gildi Vináttu að leiðarljósi. Mikilvægt er að muna að öll börn eiga jafnan rétt á að tilheyra hópnum, að taka virkan þátt og vera metin að verðleikum. Taka þarf vel á móti nýjum nemendum, hjálpa þeim að verða hluti af hópnum og eignast félaga og vini. Það er hægt að gera með því að fela öðrum börnum það hlutverk að sýna nýja barninu skólann og vera því til halds og trausts fyrst um sinn.

Þeir fullorðnu móta umhverfið sem börn eru í

Börn búa yfir mismunandi styrkleikum. Þau eiga mis auðvelt með að koma sér inn í hóp og tengjast öðrum börnum. Sum börn þurfa aðstoð við það og þá er það hlutverk okkar fullorðnu að aðstoða og nota Vináttu sem tæki til að móta samfélag barnanna. Gott er að minna sig reglulega á að það eru þeir fullorðnu sem móta umhverfið sem börnin eru í og því er ábyrgðin þeirra.

Hvernig er börnunum skipt í hópa?

Með því að kennarinn skipti í hópa eða láti börnin draga sig í hópa í stað þess að velja sjálf, er hægt að tryggja að ekkert barn verði útundan í leik eða starfi, að öll börn séu jafn gild og jafn mikilvæg sem félagi. Margir nota samstæðuspil til að para börn eða skipta í hópa. Börnunum finnst spennandi að sjá hver hefur dregið eins spil og þau og hvern þau eigi að leiða þennan daginn eða vinna með. Þegar börn fá að velja sessunaut, ferðafélaga eða vinnufélaga sjálf er hætt við að það sé alltaf einhver sem aldrei er valinn fyrstur og sá hinn sami fyllist óöryggi og vanmætti, verður kvíðinn og sjálfsmyndin getur laskast. Goggunarröð myndast og nemendur finna að þeir eru taldir mis eftirsóknarverðir sem félagar. Hægt er að útfæra samstæðuspil á fjölbreyttan máta, til dæmis með því að notast við myndir, form, liti, bók- eða tölustafi eða jafnvel reikningsdæmi.

Að koma í veg fyrir útilokun

Í barnahópum myndast gjarnan togstreita og samkeppni um athygli og hver fær að stýra leik. Börnin reyna að marka sér sterka stöðu innan hópsins. Þegar barn óttast að verða útundan í hópnum getur það leitt til þess að það reynir að útiloka annað barn, ýta því út á jaðarinn, til að tryggja sína eigin stöðu. Slík jaðarsetning getur birst í því að einungis einhver ákveðinn klæðnaður er viðurkenndur í hópnum sem hinn „rétti“, ákveðnar skoðanir eru réttar og ekki er hlustað á tillögur þess sem á að útiloka eða jaðarsetja. Þessi viðmið breytast svo eftir hentugleika og eiga við stundum og stundum ekki. Í slíkum jarðvegi þrífst einelti, vex og dafnar.

 

Öryggi skiptir máli

Áður ríkti það viðhorf að einelti kæmi upp þegar barn vildi vinna öðru barni mein og hefði jafnvel „jákvæða afstöðu til ofbeldis“. Með nýrri rannsóknum sem Vinátta byggir á vitum við að einelti kemur upp þegar eitt eða fleiri börn óttast að þau verði útundan í hópnum. Með þessa vitneskju að leiðarljósi er auðveldara að fyrirbyggja einelti. Tryggja þarf að öll börn finni fyrir öryggi í barnahópnum og þau séu metin að eigin verðleikum.

Hvernig virkar Vinátta best?

  • Nota námsefnið reglulega.Til þess að Vinátta beri árangur þarf fyrst og fremst að nota námsefnið reglulega. Það er hægt að tryggja með því að setja Vináttu-stundir á dagskrá í hverri viku og nýta að auki efnið þegar með þarf. Námsefnið er auðvelt í notkun og krefst lítils undirbúnings.
  • Hafa hugmyndafræðina að leiðarljósi í öllu starfi. Með því að hafa gildin og hugmyndafræðina sem Vinátta byggir á að leiðarljósi í öllu starfi, í skólastofunni, inni sem úti skilar Vinátta betri árangri. Þegar Vinátta er orðin andinn í húsinu og rauði þráðurinn í öllu skólastarfi er skólabragur góður og börnum og fullorðnum líður vel. Til þess að svo verði þurfa allir starfsmenn að þekkja hugmyndafræði og aðferðir Vináttu.
  • Fullorðnir sem fyrirmynd.Þegar hinir fullorðnu, bæði foreldrar og allir þeir sem starfa með börnunum eru góðar fyrirmyndir í framkomu og samskiptum er líklegra að börn eigi góð samskipti og sýni öðrum umburðarlyndi, umhyggju og virðingu.

Við hvetjum ykkur til að hefja skólastarfið með Vináttu og Blæ bangsa.

 

Næstu námskeið

Eftirfarandi námskeið eru í september og október og er skráning hafin.

Fyrir leikskóla

8. september: Vináttafyrir leikskóla, kl. 9-16.Staðnámskeið að Fákafeni 9.
27. og 29. september: Vináttafyrir leikskóla, kl. 13-17.Fjarnámskeið.

Fyrir grunnskóla

13. og 15. september: Vinátta  fyrir grunnskóla, kl. 13-17.Fjarnámskeið.
4. og 5. október: Vináttafyrir grunnskóla, kl. 13-17. Staðnámskeið að Fákafeni 9, Reykjavík.

Tilvalið er að bjóða nýju starfsfólki að sækja námskeið.

Námskeið og kynningar í skólum:

Einnig er boðið upp á námskeið og kynningar í skólum ogfríístundaheimilum Hafið samband við vinatta@barnaheill.is um aðrar óskir um fræðslu eða námskeið.

Kynningar fyrir foreldra

Þátttaka foreldra í Vináttu skiptir miklu máli og getur Blær aðstoðað við að brúa bilið milli heimilis og skóla og stuðla að góðri samvinnu um samskipti og líðan barnanna. Við bjóðum upp á kynningar um Vináttu fyrir foreldra og eru undirtektir foreldra mjög jákvæðar. Ef óskað er eftir slíkru kynningu hafið þá samband í gegnum vinatta@barnaheill.is

Nýir starfsmenn:

Tveir nýir starfsmenn eru að hefja störf hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi og munu m.a. starfa í Vináttu-teyminu okkar, svo sem námskeiðshaldi.

Það eru þær Ída Björg Unnarsdóttir og Agnes Ósk Egilsdóttir.
Báðar hafa þær víðtæka reynslu af að vinna með Vináttu í skólum.

Heimsókn í skóla

Víða í skólum fer fram frábært starf með Vináttu og hvetjum við ykkur til að deila því með okkur í facebook- hópunum.

Í vetur stefnum við á að heimsækja Vináttu-skóla í hverjum mánuði og fá að fylgjast með starfinu. Þeir skólar sem eru tilbúnir til að fá okkur í heimsókn, endilega hafið samband í vinatta@barnaheill.is og tilgreinið hvaða tímar myndu henta.

Sjá fréttabréfið í heild sinni hér

Með Vináttu-kveðju, Margrét Júlía, Linda Hrönn, Ída og Agnes.