Vináttufréttir - mars 2021

Þessi fallega teikning er í nýju bókinni Vinátta í leikskólanum
Þessi fallega teikning er í nýju bókinni Vinátta í leikskólanum

Nýtt efni fyrir leikskóla – sögubók og veggspjöld fyrir þriggja til sex ára

 

Með hækkandi sól er það sönn ánægja að kynna nýtt efni fyrir leikskóla - ekki síst fyrir aldurshópinn þriggja til sex ára.

Í febrúar gáfu Barnaheill – Save the Children á Íslandi út sögubókina Vinátta í leikskólanum. Í bókinni er þeim Friðriki og Katrínu fylgt eftir einn skóladag. Þeim finnst gaman í leikskólanum. Þar eiga þau marga góða vini, skemmta sér og læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Þó getur komið fyrir að allt fari í hnút í leiknum, einhver meiði sig eða sakni mömmu og pabba. Þá er gott að geta hjálpað hvert öðru og heppilegt að Friðrik og Katrín skuli búa yfir ofurkröftum! Þau eru nefnilega ofurgóð í að sýna vináttu í verki, vera elskuleg við aðra, hughreysta og sækja hjálp þegar eitthvað bjátar á.

Öllum Vináttuleikskólum stóð til boða að fá eina bók að gjöf og hafa margir þegið bókina.

Nú í mars komu út ný og endurbætt veggspjöld. Um er að ræða endurbætt ráð til foreldra, viðurkenningarskjal, svo og veggspjald með gildunum fjórum, bæði með og án texta. Veggspjöldin eru án endurgjalds.

Hægt er að panta Vináttu í leikskólanum og veggspjöldin á pöntunarsíðunni hér.

Skólar geta sótt pantanir á skrifstofu samtakanna sem er opin mánudaga til fimmtudaga 9-16 og á föstudögum 9-13. Vilji skólar fá pantanir sendar greiða þeir sendingarkostnað.

 

Höfum Vináttu sýnilega í skólanum

Við hvetjum alla skóla til að hafa Vináttu sýnilega í skólanum. Gott er að hafa veggspjöldin á áberandi stað fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Það minnir alla á að hafa gildi og hugmyndafræði Vináttu að leiðarljósi í daglegu skólastarfi.

Vefsíða skólanna er glugginn út í samfélagið. Því er mikilvægt að hafa lógó Vináttu, foreldraráðin og aðrar upplýsingar um Vináttu sýnilegt á vefsíðunni. Þannig vita foreldrar og aðrir sem skoða vefsíðuna að verið sé að vinna með Vináttu, félagsfærni barnanna og samskipti í skólanum. Það veitir foreldrum öryggi, hvetur þá til að kynna sér efnið og tileinka sér hugmyndafræðina heima við. Flestir skólar eru með eineltisáætlanir sem eru tilgreindar á vefsíðu skólans. Þar er kjörið að segja frá Vináttu sem er forvarnaáætlun gegn einelti.

Lógó og fleiri myndir til að setja á vefsíður má finna hér.

Að fara úr leikskóla í grunnskóla

Það er stór stund í lífi allra barna að kveðja leikskólann sinn og hefja nám í grunnskóla. Söknuður, eftisjá og tilhlökkun eru tilfinningar sem gera vart við sig bæði hjá börnum og starfsfólki. Skólar leggja sig fram um að gera umskiptin börnunum sem auðveldust með heimsóknum á milli skóla og öðrum verkefnum. Margir skólar nýta Vináttu og Blæ bangsa sem stuðning. Í mörgum sveitarfélögum og hverfum eru allir leikskólarnir og grunnskólinn að vinna með Vináttu og því kjörið að nota verkefnið sem tæki til að styðja börnin við að flytjast í nýjan skóla eða á nýtt skólastig. Hér eru nokkur dæmi um hvað hægt er að gera:

  • Börn fara með litla Blæ úr leikskólanum í grunnskólann að vori og þar bíður Blær eftir þeim að hausti.
  • Lesa fyrir börnin úr bókinni Lífið í grunnskólanum, ræða og vinna verkefnin. Bæði er hægt að nýta bókina í leikskólanum og í heimsóknum í grunnskólann.
  • Tónlistarleikir: Börnin úr leikskólanum og grunnskólanum leika sér saman í tónlistarleikjunum og syngja með. Skipta í hópa með því að hafa börn af báðum skólastigum í hverjum hópi. Munum að börnin velja sig ekki saman í hóp því það getur stuðlað að útilokun.
  • Samverustund: Vinna með samræðuspjöld, svo sem Stórir og smáir vinir (nr. 3) og Góður bekkjarandi (nr.15).

Þegar bæði leikskóli og grunnskóli barnanna vinna með Vináttu auðveldar það aðlögun á nýju skólastigi. Bæði börn og starfsfólk þekkja gildin, orðfærið og samskiptamáta.

Næstu Vináttunámskeið

 

Leikskólar: 7. og 8. apríl kl 13:30 – 17:00 báða dagana.

Skáning hér.

Grunnskólar og frístundaheimili: 28. og 29. apríl kl 13.30 – 17.00 báða dagana. Kjörið fyrir þá kennara sem kenna yngsta stigi veturinn 2021 – 2022.

Skáning hér.

Námskeiðin eru fjarnámskeið.

Að lokum viljum við minna á bókina Vinátta í útivist- útinám og leikir

Þar er að finna fjölda verkefna og leikja sem stuðla að samvinnu og samennd út í vorið.