Vinir Ferguson og Vestfjarða keyra Vestfjarðahringinn til styrktar Vináttu

Miðvikudaginn 13. júlí munu þeir félagar Grétar Gústavsson og Karl Friðriksson ljúka hringferð sinni um landið á tveimur traktorum með því að fara Vestfjarðahringinn til styrktar Vináttu – forvarnaverkefnis Barnaheilla gegn einelti.

Skorað hefur verið á þá félaga að klára hringferðina, en sumarið 2015 fóru þeir hringinn í kringum landið að undanskildum Vestfjörðum. Eftir hringferðinna gáfu þeir út bókina Vinir Ferguson, hringferð um landið gegn einelti og rann salan á bókinni óskipt til styrktar Vináttu.

Grétar og Karl hafa verið vinir í um sextíu ár og kynntust í sveitinni Valdarási í Fitjadal. Þegar Massey Ferguson 35X vélin kom í sveitina var eins og Rolls Royce væri kominn á hlaðið á bænum. Þeir áttu sér þann draum í æsku að keyra um landið á þessum traktori og var það uppsprettan að hringferð þeirra félaga. Þeir keyrðu hringinn á traktornum árið 2015.

Líkt og í fyrra skiptið er meginmarkmið Grétars og Karls með ferð sinni að styrkja Vináttu, forvarnaverkefni Barnaheilla, sem beinist að því að fyrirbyggja einelti gegn börnum á leik- og grunnskólaaldri. Unnið er með Vináttu í leik- og grunnskólum auk frístundaheimila um land allt, en verkefnið hefur verið innleitt í yfir 65% allra leikskóla á landinu og um 30% grunnskóla. Blær, fjólublár bangsi, er helsta táknmynd Vináttu og mun bangsinn að sjálfsögðu ferðast með félögunum sem munu stoppa við í Vináttuskólum á Vestfjörðum.

Félagarnir leggja í hann frá Staðarskála þann 13. júlí og verða átta daga á leiðinni. Þeir munu koma í mark þann 20. júlí á Hvanneyri.

Styrktarsíðuna má finna hér: https://www.barnaheill.is/is/styrkja-starfid/fjaraflanir/vinir-ferguson 
Einnig er hægt að styrkja með því að senda SMS skilaboðin ,,Barnaheill“ í síma 1900 og gefa kr. 1.900 til styrktar baráttunni gegn einelti.

 

Hér má finna ýmsar upplýsingar um undirbúning vinanna

Ferðaáætlun:

13. júlí - Staðarskáli – Hólmavík

14 júlí - Hólmavík – Hamar

15 júlí - Hamar – Ögur

16 júlí – Ögur - Ísafjörður 

17 júlí - Ísafjörður – Bíldudalur 

18 júlí - Bíldudalur – Flókalundur

19 júlí - Flókalundur – Reykhólar 

20 júlí - Reykhólar – Hvanneyri