Vinir ungmennaráðs Barnaheilla

Í vor fórum við í ungmennaráðinu af stað með verkefni sem við köllum Vinaverkefnið. Okkur langaði að gera eitthvað með ungum nýbúum á Íslandi, en ekki bara að gera eitthvað fyrir þá. Í kjölfarið höfðum við fatasöfnun, tókum þátt í Ungum vísindamönnum hjá Háskóla Íslands og ákváðum að byrja Vinaverkefnið.
Verkefnið er afar einfalt en skemmtilegt og felst einfaldlega í því að hittast til að gera eitthvað saman.Við höfum hingað til skipulagt allt í gegnum facebook hópinn „Vinir ungmennaráðs Barnaheilla“ sem allir eru velkomnir í. Við hittumst sirka aðra hverja viku og höfum nú hist fjórum sinnum - og það styttist í næsta hitting.
Allir sem hafa tekið þátt í verkefninu hafa haft gaman af. Við höfum gert margt skemmtilegt á þessum fáu hittingum, farið í sund, bíó, dansað, bakað vöfflur og fleira skemmtilegt. Svona verkefni geta verið lengi að komast á skrið en nú hafa fleiri bæst í hópinn og allt lítur út fyrir að við höldum áfram að stækka og dafna. 

Ingibjörg Ragnheiður Linnet 

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.