Vopnaðir hópar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó hafa ráðist á fleiri en 150 skóla á þessu ári

Fleiri en 150 skólar í Norður Kivu héraðinu í austanverðu Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó hafa orðið fyrir árásum vopnaðra hópa. Þetta er hluti af ofbeldisbylgju þar í landi sem hefur farið stigvaxandi frá því í janúar á þessu ári. Árásirnar hafa haft áhrif á menntun yfir 62.000 barna.

Vopnaðir hópar hafa markvisst ráðist á skóla og oft notað skrifborð og stóla sem eldivið og þar með svipt börn öruggu námsumhverfi.

Af þeim 6.800 skólum sem eru á svæðinu hafa fleiri en 150 þeirra orðið fyrir árásum. 18 skólar eru eins og stendur í höndum vopnaðra hópa og 113 skóla til viðbótar er verið að nýta sem skammtímabúðir fyrir fólk á vergangi.

Norður Kivu er eitt af átakagjörnustu héruðum landsins. Undanfarið ár hafa hátt í ein miljón manns þurft að flýja heimili sín vegna átaka. Átök hafa geisað víða um landið í tæplega 30 ár sem bitnað hefur einna mest á börnum þar í landi.

Árásir á skóla í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó hafa hörmuleg áhrif á menntunarmöguleika barna, en um 4% skóla í landinu eru annaðhvort í höndum vopnaðra hópa eða verið gerðir ónothæfir.

Alphonsine*, 13 ára stúlka frá Nyiragongo í Norður Kivu, yfirgaf þorpið sitt fyrir sex mánuðum síðan og býr nú í búðum fyrir fólk á vergangi. Vopnaður hópur hefur hertekið skólann hennar.

„Einn daginn hitti ég tvo vini mína og skólastjórann okkar í búðunum. Skólastjórinn sagði að skólinn okkar hafi verið eyðilagður með sprengjum. Vopnaða fólkið sem tók yfir skólann tók allar hurðar og alla gluggana til þess að selja þá. Skólastjórinn sagði okkur að við gætum ekki tekið skólann okkar til baka fyrr en stríðinu lýkur.

Barnaheill – Save the Children, með hjálp samstarfsaðila á svæðinu, aðstoða skóla í Norður Kivu við viðgerðir á húsnæði og þjálfun kennara og með því að koma til þeirra skólavörum, tíðavörum og fjárhagsaðstoð til jaðarsettra fjölskyldna. Fjórir skólar sem Barnaheill starfa með hafa orðið fyrir árásum vopnaðra hópa.

Juliana* er 27 ára kennari við skóla sem Barnaheill starfa í í Norður Kivu. „Skólinn okkar hefur verið vígvöllur. Vopnuðu hóparnir sem tóku yfir skólann notuðu allar skólavörur úr timbri og alla bekkina sem eldivið. Nemendur og kennarar hafa flúið úr þorpinu til öruggari staða. Ég vona innilega að friður náist aftur svo ég geti haldið vinnunni minni áfram. Ég sakna nemenda minna.“

Marc* er 45 ára skólastjóri í Norður Kivu biðlar til yfirvalda að tryggja öryggi barna á svæðinu. „Það syrgir mig þegar ég hugsa til alls stuðningsins sem Barnaheill – Save the Children veittu skólanum okkar og að nú sé það nánast allt eyðilagt. Hurðir og gluggar teknir úr skólastofum og skólavörur brenndar, þessir vopnuðu menn eru að ráðast á framtíð barnanna okkar. Ég bið yfirvöld að tryggja öryggi okkar á þessu svæði, þar á meðal í skólunum okkar, svo að hægt sé að tryggja öllum börnum rétt sinn til menntunar.“

Til viðbótar við tjón á skólum í árásunum komast ótal börn um allt land ekki til skóla vegna þess að þau eru á flótta undan átökunum og búa í flóttamannabúðum og öðru tímabundnu húsnæði, þar á meðal skólum.

Alphonsine* 13 ára segist finna fyrir frelsi og öryggi þegar hún heimsækir Barnvæn svæði Barnaheilla. „Þegar ég flúði tók ég ekkert með mér nema peysu til að verjast kuldanum. Fötin mín, stílabækurnar og skólataskan urðu eftir. Ég kem á hverjum degi til Barnvæna svæðisins sem Barnaheill hafa sett upp. Við syngjum karaoke og spilum ýmsa leiki. Mér líður vel þar því ég upplifi frelsi. Það er líka matur þar og við fáum sápu og þvottapoka til að þvo okkur.“

Amavi Akpamagbo, yfirmaður Barnaheilla – Save the Children í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sagði:

„Í ár höfum við séð óhugnanlegan vöxt í árásum á þorp og bæi, þar á meðal skóla, sem setur rétt barna til menntunar í hættu. Barnaheill – Save the Children hvetja þá sem eiga þátt í átökunum að setja upp gistisvæði sín, geymslur og æfingasvæði lengra frá skólum og hvetja ríkisstjórn landsins til þess að taka tillit til öryggis skóla í yfirvofandi friðarviðræðum.“

Barnaheill – Save the Children hafa unnið hörðum höndum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 1994 til þess að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem hafa þurft að flýja vegna átaka í eystri héruðum landsins, sérstaklega Norður og Suður Kivu, og í Kasai-Oriental og Lomami fyrir miðju landsins.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi styðja við Barnvæn svæði í Suður Kivu. Tilgangur Barnvænna svæða er að skapa umhverfi þar sem börn geta komið saman til að leika sér og taka þátt í starfsemi sem er bæði fræðandi og eflir félags- og tilfinningalega færni. Í þessum rýmum er lögð áhersla á valdeflingu barna og er þeim kennt hvert skuli leita þegar þau þurfa á aðstoð að halda.