Yfir milljarður barna í hættu

Skýrsla Barnaheilla – Save the Children The Many Faces of Exclusion, End of Childhood Report 2018
Skýrsla Barnaheilla – Save the Children The Many Faces of Exclusion, End of Childhood Report 2018

Meira en helmingur allra barna í heiminum býr við þá ógn að fá ekki að njóta bernskunnar vegna fátæktar, átaka og mismununar gegn stúlkum. Um er að ræða 1,2 milljarða barna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children sem kom út 1. júní síðastliðinn.

Skýrslan, sem ber heitið The Many Faces of Exclusion (Hin mörgu andlit útilokunar), er liður í verkefninu End of Childhood (Börn án bernsku 2018) þar sem Barnaheill – Save the Children leggja mat á lífsskilyrði barna í 175 löndum. Mælikvarðar sem notaðir eru til að leggja mat á þætti sem ógna bernskunni eru heilsufar, vannæring, útilokun frá skólagöngu, barnaþrælkun, barnahjónabönd, ótímabærar þunganir og gróft ofbeldi. Löndum er raðað á lista eftir því hve hátt þau skora með hliðsjón af ofangreindum þáttum.

Singapúr og Sólvenía verma efsta sætið yfir lönd sem búa börnum best lífsskilyrði. Þar á eftir koma Noregur og Svíþjóð. Finnland er í 5. sæti. Ísland er í 8. sæti (sama og 2017) ásamt Ítalíu og Suður-Kóreu. Danmörk er í 22. sæti og því mun neðar en hin Norðurlöndin. Átta af þeim löndum sem skipa tíu neðstu sætin eru í Mið- og Vestur-Afríku. Malí og Níger eru í tveimur neðstu sætunum.

Samanburður við mat frá fyrra ári, þegar sambærileg skýrsla kom út í fyrsta sinn, sýnir að staða barna hefur batnað í 95 löndum af þessum 175. Það er gleðiefni en niðurstöðurnar sýna líka að úrbætur heilt yfir eru ekki nógu hraðar og að staðan er umtalsvert lakari nú í um 40 löndum.

Ef litið er nánar á þá þætti sem ógna bernskunni, þ.e. fátækt, átök og mismunun gegn stúlkum, kemur í ljós að ein milljón barna býr í löndum þar sem fátækt ríkir. Að minnsta kosti 240 milljónir barna búa í löndum þar sem átök ríkja eða staðan er viðkvæm og 575 milljónir stúlkna búa í löndum þar sem mismunum gegn þeim er útbreidd. Þessi börn eru í meiri hættu á að deyja áður en þau ná fimm ára aldri, hætta á vannæringu og barnaþrælkun er meiri auk þess sem þessi börn eiga frekar á hættu að fá ekki að ganga í skóla, vera þvinguð í hjónabönd eða fæða börn þegar þau eru sjálf á barnsaldri og hvorki andlega né líkamlega tilbúin til þess.

Barnaheill – Save the Children benda í skýrslunni á ýmsar leiðir til úrbóta. Má þar nefna hvatningu um að efna þau heit sem þjóðarleiðtogar gáfu á fundi í september 2015 um að ná 17 markmiðum um sjálfbærni fyrir 2030. Þá er sett fram áskorun til þjóða heims um sértækar aðgerðir til:

  • að tryggja að öll börn njóti alhliða öryggis og verndar óháð því hver og hvaðan þau eru,
  • að öll börn njóti jafnræðis og menntunar,
  • að vinna gegn fátækt barna,
  • að hindra mismunum gegn stúlkum.

The Many Faces of ExclusionNánar má lesa um niðurstöður á vef verkefnisins og í skýrslunni.

Sjá einnig myndbandið Why Should My Childhood End?