Yfirlýsing vegna nýlegs dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra

Barnaheill hafa ásamt UNICEF á Íslandi og Heimili og skóla – Landssamtökum foreldra sent frá sér yfirlýsingu vegna nýlegs dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli kennara og sveitarfélags. Í ályktuninni er ítrekað að samkvæmt 19. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers kyns ofbeldi meðan það er í umsjá foreldra, lögráðamanns eða annarra. Þegar barn hefur sætt illri meðferð skal tryggja nauðsynlegan stuðning og ef við á tryggja afskipti dómara.

Í áratugi hefur baráttufólk fyrir réttindum barna unnið að því að breyta viðhorfum til barna og tryggja velferð þeirra og öryggi og það er því reiðarslag að lesa dóm sem féll í héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem skeytingaleysi gagnvart réttindum barna og úreltar hugmyndir skutu aftur upp kollinum.

Úr yfirlýsingunni:

Það er áhyggjuefni ef dómstólar landsins ýta undir fordóma gagnvart börnum og viðurkenna ekki rétt barna til verndar gegn ofbeldi. Það færir baráttuna fyrir réttindum barna áratugi aftur í tímann. Við skorum á dómstóla landsins til þess að fylgja Barnasáttmálanum, berjast gegn fáfræði um réttindi barna, tryggja vernd barna, og ábyrgð fullorðinna.

Ljóst er að dómurinn leggur sig fram um að réttlæta ofbeldi gegn barni, þrátt fyrir að hann segist ekki samþykkja það. Orðfæri dómsins er gildishlaðið að mati samtakanna þriggja og látið að því liggja að viðbrögð barnsins hafi verið röng en viðbrögð fullorðna aðilans hafi verið rétt og jafnvel eðlileg. Ámælisvert er að í dómnum er hvorki að finna viðurkenningu á viðkvæmri stöðu barnsins né áréttingu dómara á því að aldrei skuli beita börn ofbeldi og að fagfólki beri skylda til að vernda börn.

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér