Eitt af hverjum sex börnum sem býr á átakasvæðum gæti orðið fyrir kynferðisofbeldi

Börn á átakasvæðum eiga í tífallt meiri hættu núna, en árið 1990, að verða fyrir kynferðisofbeldi á átakasvæðum. Fjöldi staðfestra tilfella kynferðisofbeldis gegn börnum á átakasvæðum er aðeins toppurinn á ísjakanum.

Alls búa 426 milljónir barna á átakasvæðum í heiminum. Samkvæmt nýrri skýrslu frá alþjóðasamtökum Barnaheilla – Save the Children, sem kom út í dag, býr 17% þeirra, eða 72 milljónir barna á átakasvæðum nálægt vopnuðum hópum sem beita kynferðisofbeldi.

Vopnaðir hópar nota kynferðisofbeldi sem stríðsvopn og samkvæmt Barnaheillum - Save the Children eiga börn sem búa á átakasvæðum í tífalt meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi í dag en fyrir þremur áratugum. Kynferðisofbeldi er notað sem stríðsvopn gegn börnum og öðrum óbreyttum borgurum helst til að hræða þau í pólitískum og hernaðarlegumtilgangi.

Löndin þar sem börn eru í hvað mestri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi á átakasvæðum eru Kólumbía, Írak, Sómalía, Suður Súdan og Jemen. Þetta felur í sér hættu á nauðgun, kynlífsþrælkun, vændi, þvingaðri meðgöngu, þvingaðri fóstureyðingu, kynferðislegri limlestingu, kynferðislegri misnotkun eða áreitni af hendi vopnaðrahópa, stjórnarhers og/eða löggæslu aðila.

Þau börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi á átakasvæðum standa frammi fyrir krefjandi áskorunum. Erfitt er að tilkynna glæpinn og þau óttast hefndaraðgerðir, auk þess sem stuðningur og þjónusta er lítil þar sem ekkert kerfi er til staðar sem heldur utan um slík mál. Auk þess er mikill skortur á sálfræðistuðningi eða geðheilbrigðisþjónustu og því þarf fjöldi barna að burðast með vanlíðan og aðrar afleiðingar þess að vera beitt þessu alvarlega ofbeldi.

Frá árinu 2006 hafa yfir 20.000 tilfella kynferðisofbeldis gegn börnum á átakasvæðum verið staðfest af Sameinuðu þjóðunum. Árið 2019 (nýjustu tölur) voru 749 staðfest tilfelli. Þar af voru 98% kynferðisbrota framin gegn stúlkum. Að auki tvöfölduðust kynferðisbrot framin af stjórnarher í landinu frá árinu á undan.

Staðfest tilfelli eru þó líklega aðeins brot af þeim kynferðisbrotum sem framin hafa verið, eins og ný rannsókn alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children hefur leitt í ljós. Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children segir fjölda staðfestra tilfella ekki endurspegla sannleikann.

,,Að meðaltali var aðeins tilkynnt um tvö kynferðisbrot gagnvart börnum á átakasvæðum á dag árið 2019. En við vitum að nauðganir og annarskonar kynferðislegt ofbeldi og áreiti hefur verið notað í auknum mæli sem stríðsvopn í átökum. Þess vegna teljum við að þessi tvö brot á dag sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Það eru miklu fleiri börn sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis sem ekki segja frá - en hafa samt sem áður mikla þörf á stuðningi. Hvers konar ofbeldi gagnvart barni er hræðilegt og verður að stöðva strax".

,,Sú staðreynd að kynferðisofbeldi gegn börnum sem framið er af ríkisherjum hafi tvöfaldast frá árinu 2018 til 2019 er skammarlegt. Stjórnvöld og ríkisherir ættu að vernda börn gegn ofbeldi, ekki beita því."

Áfallið sem barn getur orðið fyrir vegna kynferðisofbeldis getur haft langvarandi líkamleg, sálræn, félagsleg og efnahagsleg áhrif á barnið. Kynferðisofbeldi getur til að mynda verið mjög skaðlegt fyrir börn sem ekki hafa fullþroskaðan líkama. Stelpur geta þjáðst í æxlunarfærum og orðið fyrir fylgikvillum vegna meðgöngu eða fóstureyðingar. Bæði stelpur og strákar eiga á hættu að þjást í endaþarmi og eru útsett fyrir kynsjúkdómum sem geta valdið langtímaskaða eða jafnvel dauða.

Dr. Denis Mukwege, sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 2018, stofnaði Panzi sjúkrahúsið í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og er yfirlæknir þar. ,,Ég opnaði Panzi sjúkrahúsið árið 1999 með það í huga að byggja upp góða mæðravernd í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Ég var ekki búinn undir það sem fylgdi í kjölfarið. Ég bjóst við að þungaðar konur kæmu til mín, en í staðinn voru fyrstu sjúklingarnir mínir ungar stúlkur sem hafði verið nauðgað. Yngsti sjúklingurinn minn sem hafði orðið fyrir nauðgun var aðeins sex mánaða gömul.“

„Að yfir 72 milljónirbarna búi í nálægð við vopnaða hópa sem beita kynferðisofbeldi gagnvart ólögráða börnum er einfaldlega óviðunandi. Alþjóðasamfélagið verður að gera meira!“

Barnaheill - Save the Children hvetja leiðtoga heims, öryggissérfræðinga, meðlimi Sameinuðu þjóðanna og félagasamtök til að tryggja að:

  • Börn séu miðpunktur allra alþjóðlegra aðgerða gegn kynferðisofbeldi á átakasvæðum. Það er nauðsynlegt að tryggja betri þjónustu og efla kerfið svo að börn geti leitað sér aðstoðar og stuðnings.
  • Enda refsileysi kynferðisofbeldis gegn börnum með því að styrkja lög og framfylgd þeirra. Gerendur þurfa að taka ábyrgð.
  • Styrkja og samræma gagnasöfnun um kynferðisofbeldi gegn börnum á átakasvæðum.

Samtökin kalla eftir auknu fjármagni tilað tryggja að hægt sé að verða við þessum kröfum.

,,Notkun kynferðisofbeldis sem stríðsvopn er andstyggilegt," bætti Inger Ashing við. ,,Þau börn sem verða fyrir þessum voðaverkum eiga meira skilið frá alþjóðasamfélaginu. Við verðum að koma saman og tryggja að kynferðisofbeldi gegn börnum verði útrýmt í eitt skipti fyrir öll."

Skýrsla Alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children,  Weapon of War má finna hér. 

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, ghjohanns@barnaheill.is, í síma 778 8038.

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.