Átakanlegt ástand þurrka og hungursneyðar á horni Afríku

Í Keníu, Sómalíu og Eþíópíu vofir yfir ein mesta hungursneyð síðari ára. Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children biðla til alþjóðasamfélagsins og stjórnvalda um að bregðast hratt við ákalli mannúðarsamtaka á svæðinu um aðstoð.

Þurrkar í þessum heimshluta, sem oft er kallað horn Afríku, hafa verið tíðir undanfarin fjörtíu ár en ástandið er nú alvarlegt þar sem skort hefur rigningu síðustu tvö ár. Rúmlega sjö milljónir barna sem búa á þurrkasvæðum Sómalíu, Eþíópíu og Kenía eru á barmi hungurs og er tíminn hreinlega að renna út. Þessi tala verður komin í tíu milljónir um mitt ár 2022 ef úrkoman lætur á sér standa. Um 330 þúsund börn í Sómalíu þurfa á meðferð að halda vegna vannæringar, 48 þúsund börn í Eþíópíu og 184 þúsund börn í Kenía. Vannæring hefur gífurleg áhrif á framtíðarhorfur þessara barna og víðtækar heilsufarslegar áskoranir.

Stjórnvöld á svæðinu hafa sagst ætla efla seiglu samfélaganna til að komast í gegnum það fæðuóöryggi sem þau búa við, en sú áætlun er ekki að fá verðskuldaða athygli. Reynsla Barnaheilla - Save the Children í Sómalíu fyrir áratug síðan er sú að viðvörunarbjöllur skuli taka alvarlega og samtakamáttur alþjóðasamfélagsins sé eina leiðin til að forðast hungursneyð.

Ástandið er einstaklega viðkvæmt vegna fjöldamargra áfalla undanfarinna ára samhliða úrkomuleysi. Til dæmis má nefna Covid-19 faraldurinn, hækkandi matvælaverð auk innrásar Rússa í Úkraínu sem leiðir til óstarfhæfra markaða, átaka og mannfalls. Þar að auki leiða þurrkarnir af sér gífurlega mannflutninga en um 450 þúsund manns hafa yfirgefið heimili sín í Sómalíu til að tryggja sér vatn og mat. Í Eþíópíu hafa um milljón dýra drepist á undanförnu ári auk þess sem vatnsból hafa þurrkast út. Í slíku ástandi aukast árekstrar milli samfélaga sem reyna að tryggja sér það litla hráefni sem til er.

Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children benda á að þörf sé á fjármagni til að mæta þessari neyð, þá sérstaklega til einkageirans, stjórnvalda, stofnana Sameinuðu þjóðanna sem og annarra mannúðarsamtaka til að taka á málum af alvöru. Samtökin eru til staðar í þessum löndum og finna fyrir auknum fólksflutningum í átt að þéttbýli þar sem fólk leitar aðstoðar og atvinnu. Þörfin á aðstoð stjórnvalda og mannúðarsamtaka verður mikil á næstu vikum og mánuðum. Reynslan sýnir að snör viðbrögð mannúðarsamtaka á svæðinu eru lykillinn að því að koma í veg fyrir að illa fari og að ástandið í Sómalíu 2011 endurtaki sig þegar 260 þúsund manns létust, þar af helmingurinn börn undir fimm ára aldri.

Rahama leitaði á heilsugæslustöð Barnaheilla - Save the Children í Sómalíu eftir að hafa flúið  heimili sitt vegna mikilla þurrka.  Hún kom ásamt börnunum sínum tveimur en þau þjáðust af mikilli vannæringu. Þau voru einnig með hita þegar þau komu og starfsfólk Barnaheilla hlúði að þeim, gáfu þeim sýklalyf og næringu. Þau dvöldu 10 daga á heilsugæslunni. 

Inn á vefverslun Barnaheilla getur þú keypt jarðhnetumauk sem er mjög prótein- og kaloríuríkt. Jarðhnetumaukið getur bjargað lífi barnanna og flýtt fyrir að þau nái heilsu á ný.  Barnaheill sjá til þess að gjöfin skili sér til þeirra sem þurfa á því að halda.