Barnaheill á vettvangi í Úkraínu

Undanfarnar vikur hafa verið hörmulegar fyrir íbúa Úkraínu. Yfir 3,5 milljónir manna hafa lagst á flótta og leitað skjóls upp á líf og dauða. Enn eru um 40 milljónir manna eftir í Úkraínu, þar af 12 milljónir sem þurfa á brýnni og lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð að halda.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru á vettvangi í Úkraínu og nágrannalöndum og á aðeins nokkrum vikum hafa aðgerðir samtakanna náð til hundruða þúsunda Úkraínubúa. Matvælaaðstoð hefur verið útdeilt í Chernitsvi og Odessa, 400 þúsund hreinlætispökkum hefur verið dreift og 60 þúsund áfallasett eru í dreifingu. Barnaheill í Rúmeníu hafa veitt yfir 15 þúsund manns aðstoð á landamærum Úkraínu auk þess sem unnið er að vernd barna í Póllandi og að koma fylgdarlausum börnum til fósturfjölskylda. Í báðum þessum löndum er námsgögnum dreift til úkraínskra barna, auk næringar- og hreinlætissetta til spítala. Barnaheill hafa sett upp barnvæn svæði á helstu móttökustöðvum flóttamanna í nágrannalöndum Úkraínu og dreifa þar meðal annars litlum gjöfum til barna sem þar koma til að gleðja þau og bjóða velkomin.

Barnaheill vinna með alþjóðleg mannúðarlög og samþykktir að leiðarljósi en samkvæmt þeim er mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði besta leiðin til að vernda almenna borgara og tryggja aðgengi til að veita þeim aðstoð.

 

Hér getur þú lagt Neyðarsöfnun Barnaheilla í lið.

Barnaheill hafa sett upp Barnvæn svæði í nágrannalöndum Úkraínu