BellaNet fræðsla Barnaheilla hafin í Suður-Kivu

Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að mannúðarverkefni í Suður-Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Verkefnið miðar að því að vernda börn þar í landi gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu á svokölluðumbarnvænum svæðum samtakanna. Barnaheill leggja áherslu á að verkefnið byggi á sérþekkingu Barnaheilla, með skýrri skírskotun í innlend verkefni samtakanna. Það er gert með innleiðingu á BellaNet aðferðafræðinni sem þjálfar einstaklinga sem vinna með ungu fólki með áherslu á forvarnir.

Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum og Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og leiðtogi erlendra verkefna skipulögðu fyrsta hluta BellaNetþjálfunarinnar fyrir starfsmenn barnvænna svæða í Suður-Kivuí vikunni. Í þessari fyrstu þjálfunfór Britt Fredeman, verkefnastjóri BellaNet International yfir forsögu og bakgrunn verkefnisins og aðferðafræðinnar. BellaNet fræðslan er þrískipt og munu starfsmenn barnvænna svæða í Kongó sitja annan hluta fræðslunnar í næstu viku. Síðasti hluti BellaNet fræðslunnar eru þjálfanir í notkun aðferðafræðinnar sem starfsmaður Barnaheilla mun stýra, og fara munu fram í Suður-Kivu, endagsetningar þeirrar þjálfunar liggja ekki fyrir, sökum Covid-19.

Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children í Kongó voru ánægðir með fyrsta hluta fræðslunnar og bíða með eftirvæntingu eftir að geta aðlagað aðferðafræðina að kongólskum aðstæðum. Aðferðafræðin byggir á rannsóknum og hefur verið gagnreynd síðustu 30 ár í fjölda landa með góðum árangri, þar á meðal á Íslandi, Rússlandi og Úganda. BellaNet er byggt þannig upp að auðvelt er að aðlaga aðferðafræðina að aðstæðum í hverju landi. Í Kongó verður til að mynda lögð áhersla á valdeflingu stúlkna og forvarnir gegn kynferðisofbeldi. En til samanburðar er m.a. lögð mikil áhersla á forvarnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun í Svíþjóð.

Barnaheill hlakka mikið til að sjá afrakstur BellaNet aðferðafræðinnar á barnvænum svæðum í Kongó en aðferðafræðin hefur, eins og fyrr segir, notið góðs árangurs í fjölmörgun löndum, þar á meðal nágrannalandinu Úganda.

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.