Börn í Evrópu hafa áhrif á réttindi sín og framtíð

Yfir tíu þúsund börn og ungmenni tóku þátt í að móta barnaréttaráætlun Evrópusambandsins.

Skoðanir og hugmyndir barna og ungmenna í Evrópu gætu leikið stærra hlutverk í stefnumótun Evrópusambandsins en nokkurn tímann áður. Hópur fimm barnaréttindasamtaka ásamt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stóðu fyrir netkönnun sem lögð var fyrir 10.000 börn og ungmenni þar sem þau höfðu tækifæri á að láta skoðanir sínar og hugmyndir í ljós. Raddir barnanna munu hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins hvað varðar réttindi og öryggi barna í Evrópu.

Þetta samráð við börn og ungmenni markar miklar breytingar hjá okkur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og er mikilvægt skref í átt að aukinni þátttöku barna. Börn eru sérfræðingar í þeim málum sem þau varða og staðfestir þetta samráð enn og aftur að börn eru nú þegar mikilvægir aðilar í stefnumörkun. Hlutverk okkar er að hvetja og ryðja brautina fyrir þau til þess að vera leiðtogar framtíðarinnar. Þess vegna er þátttaka barna, jafnrétti og ábyrgð þeirra leiðarljós í stefnu ESB um réttindi barna og öryggi þeirra. Við verðum að tryggja að öll börn hafi sömu tækifæri og möguleika í lífinu til þess að dafna í þessum heimi, laus við ótta og vanlíðan,

segir varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Dubravka Šuica.

Skýrslan Evrópan okkar, réttindin okkar, framtíðin okkar var byggð á svörum allra þeirra tíu þúsund barna og ungmenna á aldrinum 11 - 17 ára sem tóku þátt. Skýrslan var gerð af þeim fimm barnaréttasamtökum sem standa könnuninni  og leggja þau áhersu á mikilvægi þess að börn og ungmenni geti haft áhrif á stefnu um framtíð þeirra.

Þetta er í sjálfu sér söguleg skýrsla, þar sem þetta er í fyrsta skipti sem svona mörg börn og ungmenni geta haft bein áhrif á og mótað stefnu Evrópusambandsins. Þetta er mikilvægur tími fyrir þátttöku barna þar sem börn standa frammi fyrir beinum og óbeinum áhrifum COVID-19 og þurfa að aðlagast nýjum veruleika um ókomin ár. Þar sem Evrópusambandið er að móta stefnu um framtíð barna þá er mikilvægt að þau geti haft áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar,

segja fulltrúar barnaréttasamtakanna fimm en það eru Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children, ChildFund Alliance, Eurochild, UNICEF og World Vision.

Nicolas Schmit, framkvæmdastjóri atvinnumála og félagslegra réttinda Evrópusambandsins, er þakklátur þeimþúsundum barna sem tóku þátt í samráðinu.

,,Þar sem við stöndum frammi fyrir félagslegum og efnahagslegum afleiðingum COVID-19 heimsfaraldursins er mikilvægt að við fjárfestum í framtíð barna. Og hverjir eru betri að segja okkur frá þeim erfiðleikum sem þau glíma við í kjölfar Covid-19 en þau sjálf? Ég fagna þessu samráði og er þakklátur þeim þúsundum barna sem lögðu sitt af mörkum. Raddir þeirra heyrast."

Didier Reynders, dómsmálaráðherra  Evrópusambandsins, segir mikilvægt að öll réttindi barna séu tekin inn í stefnumörkun.

Við sem stefnumótendur verðum að tryggja að heildarstefna okkar nái til allra barna. Til að koma á heildarstefnu um réttindi barna verðum við að ná til allra viðeigandi sviða, allt frá heilsu (þ.m.t. geðheilsu), menntun, réttlæti og jafnræði, félagslegri þátttöku og fleira. Það er afar mikilvægt að hlusta á börn og ungmenni og heyra raddir þeirra um sín málefni. Þess vegna er þetta samráð svo dýrmætt og mun hjálpa til með að styðja stefnu ESB um réttindi barna.

Helstu niðurstöður netkönnunarinnar

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur valdið börnum og ungmennum í Evrópu og víðar mikilli streitu og óvissu. Eitt af hverjum fimm börnum innan Evrópu sem svöruðu könnuninni, sögðust hafa alist upp við vanlíðan og kvíða framtíðinni.

Skýrslan leiddi í ljós aðrar áþreifanlegar niðurstöður:

  • Næstum 1 af hverjum 10 börnum sem svöruðu könnuninni skilgreindu sig eiga við geðræn vandamál að stríða eða glíma við einkenni eins og þunglyndi eða kvíða.
  • Þriðjungur barna og ungmenna upplifðu mismunin eða útilokun.
    • Það hlutfall hækkaði í 50% meðal fatlaðra barna, innflytjendabarna, minnihlutahópa eða þeirra barna sem skilgreina sig LGBTQ+.
  • 75% barna sem svöruðu könnuninni upplifðu sig ánægða í skólanum. En 80% þeirra 17 ára barna sem svöruðu töldu að námið sem þau eru í búi þau ekki vel undir framtíðina.
  • Meirihluti barna sem leitað var til vildu gera breytingar á skipulagi námsins. 62% aðspurða vildu fá minna heimanám og 57% barna vildu fá áhugaverðari kennslustundir. Næstum því þriðjungur svarenda vildi fá að hafa áhrif á skólanámskrá, efla vægi íþrótta (33%), meiri upplýsingagjöf um réttindi barna (31%) og fleiri listgreinar (31%), Hins vegar höfðu nær allir svarendur heyrt um réttindi barna.
  • 88% barna og ungmenna sem leitað var til voru meðvituð um loftslagsbreytingar og þau áhrif sem loftslagsbreytingar geta valdið.

Nánari upplýsingar um skýrsluna veitir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra- og Evrópuverkefna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, margret@barnaheill.is, eða í síma 553-5900

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.