Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna er þann 20. nóvember ár hvert. Barnaheill hafa frá upphafi séð um framkvæmd dagsins í samstarfi við stjórnarráðið en það var samþykkt á Alþingi árið 2016 að helga daginn fræðslu um mannréttindi barna. Mikilvægt er að börn og fullorðnir þekki réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og menntun barna í mannréttindum þarf að vera samofin öllu skólastarfi. Með þessum degi er þó vakin sérstök áhersla á að stuðla að slíkri menntun og hafa Barnaheill sent árlega til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla fjölbreyttar kennsluhugmyndir til að vinna að í tengslum við daginn.

Að þessu sinni fengu skólar senda kynningu á lokaathugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda. Samtökin færðu athugasemdirnar í barnvænan texta og settu upp kynningu á þeim sem kennarar og aðrir sem vinna með börnum geta nýtt sér. Mikilvægt er þó að hlusta á raddir barnanna sjálfra og því skipta viðbrögð þeirra öllu máli. Varpað er fram spurningum í kynningunni um hvað þeim finnst um þessar athugasemdir og hvað þau telji mikilvægast að bæta strax. Börnin eru einnig spurð hvort það sé eitthvað fleira sem þú telja að þurfi að bæta en komi ekki fram í athugasemdum og svo gefst þeim kostur á að bæta við fleiri atriðum sem þau telja mikilvægt að komi fram. Auk áherslu á lokaathugasemdirnar sendu samtökin hugmyndir til skóla um að setja upp nemendaþing í skólum þar sem öllum nemendum gest kostur á að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri.

Kynningin með lokaathugasemdunum er hægt að nálgast hér.

Hugmyndir af nemendaþingi í skólum er hér.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um Dag mannréttinda barna og hér er bréfið sem sent var út til allra skóla.