Elíza Reid styður við vernd gegn ofbeldi á börnum í Síerra Leóne

Eliza Reid kaupir fyrsta armbandið í söfnun Barnaheilla sem hófst í dag, 25. september. Söfnunin er …
Eliza Reid kaupir fyrsta armbandið í söfnun Barnaheilla sem hófst í dag, 25. september. Söfnunin er til styrktar vernd gegn ofbeldi á börnum í Síerra Leóne.

Elíza Reid forsetafrú keypti fyrsta armbandið við formlega opnun haustsöfnunar Barnaheilla í dag. Með kaupum á armbandinu sýndi hún þróunarverkefni Barnaheilla stuðning sem miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi í Síerra Leóne.

Haustsöfnun Barnaheilla er haldin í annað sinn í ár og rennur allur ágóði af sölunni beint til þróunarverkefnis Barnaheilla í Síerra Leóne.

,,Barnaheill vinna í Pujehun héraði í Síerra Leóne sem er fátækasta hérað landsins. Ofbeldi í skólum er gríðarlega algengt vandamál í landinu en níu af hverjum tíu börnum verða fyrir ofbeldi í skólum. Tvær af hverjum þremur stúlkum verða fyrir kynferðisofbeldi í skólum og 18% stúlkna er nauðgað oft í ,,skiptum” fyrir betri einkunnir. Þetta er hræðilegur veruleiki fyrir börn og leggjum við mikla áherslu að fræða börn, foreldra, kennara, þorpshöfðingja og annað fullorðið fólk um ofbeldi,” segir Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla og leiðtogi erlendra verkefna.

Armbandið kostar kr. 2.500 og eru einstaklingar, íþróttafélög og félagasamtök um allt land að selja armbandið. Einnig er hægt að kaupa armbandið á völdum Olísstöðvum og í vefverslun Barnaheilla.