Hjólasöfnun Barnaheilla hófst í dag – sífellt fleiri börn og ungmenni eiga ekki hjól

Þorvaldur Daníelsson afhenti Loga Davíðssyni Lamude fyrsta hjólið í Hjólasöfnun Barnaheilla
Þorvaldur Daníelsson afhenti Loga Davíðssyni Lamude fyrsta hjólið í Hjólasöfnun Barnaheilla

Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var formlega hleypt af stokkunum í dag, föstudaginn 24. mars kl. 11:30 í móttökustöð Sorpu á Sævarhöfða. Það var Þorvaldur Daníelsson hjá Hjólakrafti sem afhenti Loga Davíðssyni Lamude, 4 ára, fyrsta hjólið í söfnunina við formlega athöfn. Þorvaldur hvetur þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma hjólum sem ekki eru í notkun í söfnunina til þeirra barna og ungmenna sem þurfa á þeim að halda.

,,Árlega úthluta Barnaheill um 300 hjólum til barna og ungmenna sem eiga ekki hjól og geta af öðrum kosti ekki tekið þátt í samfélagi hjólamenningarinnar á jafnt við önnur börn. Eftirspurnin eftir hjólum hefur aukist á milli ára og því mikil þörf fyrir hjólasöfnunina.” segir Linda Hrönn Þórisdóttir, leiðtogi innlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Í nýútkominni skýrslu Barnaheilla kemur fram að um 10.000 börn eða 13,1% barna búa við fátækt á Íslandi og um eitt af hverjum fjórum heimilum eiga erfitt með að standa straum af daglegum útgjöldum. ,,Með því að veita börnum og ungmennum tækifæri á að eignast hjól fá þau tækifæri til að hjóla með öðrum börnum og efla um leið lýðheilsu auk þess sem aukin sjálfbærni er höfð að leiðarljósi,” bætir Linda við.

Allir eru hvattir til að koma hjólum sem ekki eru í notkun á endurvinnslustöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu; Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar munu gera hjólin upp undir styrkri leiðsögn sérfræðinga frá Reiðhjólabændum áður en þeim verður úthlutað í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga til barna og ungmenna sem búa við fjárhagslegar og/eða félagslega erfiðar aðstæður.

Þetta er í tólfta sinn sem Hjólasöfnun Barnaheilla er haldin en hún var sett á laggirnar árið 2012. Samstarfsaðilar Barnaheilla í Hjólasöfnuninni eru Sorpa, Reiðhjólabændur og Æskan – IOGT. Verkefnið hefur mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu en þúsundir barna hafa notið góðs af verkefninu frá upphafi. Hjólasöfnunin stendur yfir frá 24. mars til 1. maí næstkomandi.

 

Við opnun Hjólasöfnunar Barnaheilla í móttökustöð Sorpu í Sævarhöfða.

Frá vinstri: Berglind Sigmarsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla, Karen Hulda Kristjánsdóttir verkefnastjóri hjá Sorpu, Steinunn Jónsdóttir umsjónarmaður hjá Sorpu, Aðalsteinn Gunnarsdóttir frá IOGT-Æskunni, Birgir Birgisson verkstæðisformaður Hjólasöfnunar, Linda Hrönn Þórisdóttir leiðtogi innlendra verkefna hjá Barnaheillum, Anna Sigríður Jökulsdóttir verkefnastjóri Hjólasöfnunar, Þorvaldur Daníelsson og Logi Davíðsson Lamude