Hvernig vinnið þið gegn einelti?

Vegna fréttaumfjöllunar um einelti síðastliðna daga vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi benda á að samtökin bjóða upp á heildstæða fræðslu og forvarnir gegn einelti og ofbeldi og er mikil sérþekking og reynsla innan samtakanna í þessum málaflokkum.

Barnaheill vilja árétta að einelti er samfélagslegt og menningarlegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi eins og allar nýjar rannsóknir benda til. Afleiðingar eineltis geta haft mikil áhrif á sjálfsmynd þeirra sem fyrir því verða og ef ekkert er aðhafst getur eineltið haft áhrif á lífsgæði barna síðar á æviskeiðinu. Einelti hefur einnig miklar afleiðingar fyrir þá sem leggja í einelti og þá sem horfa upp á það. Barnaheill benda á að þau börn sem leggja í einelti hafa líka sín sjálfstæðu réttindi og þarf því einnig að hlúa að þeim því um undirliggjandi vanda getur verið að ræða sem nauðsynlegt er að vinna með og hjálpa þeim að komast út úr því hlutverki.

Mikilvægt er að bregðast við því einelti sem kemur upp í barnahópum þannig að allir komi út með reisn án þess að finna sökudólga og fórnarlömb. Um heildstæðan vanda er að ræða sem hefur ekkert með börnin sjálf að gera heldur þá menningu sem hefur skapast í hópnum, menningu sem snýr oft að útilokun, ofbeldi, hatursorðræðu og fleiru. Ábyrgð okkar fullorðnu, foreldra, kennara og annarra sem vinna með börnum er mikil því það erum við sem eigum að ganga fram með góðu fordæmi og skapa börnum þannig umhverfi að einelti nái ekki að þrífast. Aðalatriðið er að börnin geti átt í góðum samskiptum sín á milli og þar skipta forvarnir meginmáli.

Barnaheill benda á að þann 3. nóvember nk. verður málþing gegn einelti, hatursorðræðu og ofbeldi haldið á Grand hótel kl 12:30 og eru frekari upplýsingar og skráning á málþingið hér.

Nánari um forvarnaverkefni og fræðslu Barnaheilla gegn einelti og ofbeldi:

Vinátta – Fri for mobberi

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.-4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu fjölbreytts námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vinátta þjálfar félagsfærni og samskipti og stuðlar að góðum skólabrag. Efnið er danskt að uppruna og heitir á frummálinu Fri for Mobberi. Vinátta byggir á rannsóknum og hefur sýnt að það virkar vel til að stuðla að betri samskiptum og koma í veg fyrir einelti. Efnið er þýtt, staðfært og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Fjölmargir leik- og grunnskólar sem og nokkur frístundaheimili vinna nú þegar með námsefnið hér á landi og er einróma ánægja með það. Boðið er upp námskeið og fyrirlestra í forvörnum gegn einelti

  • Námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk skóla og frístundaheimila
  • Kynning fyrir þá skóla og frístundaheimili sem nú þegar vinna með efnið
  • Foreldrafræðsla um hlutverk foreldra og hvernig þeir geta stuðlað að góðum samskiptum á meðal barnanna

SKOH! – Hvað er ofbeldi?

SKOH! Hvað er ofbeldi?  er forvarnafræðsla Barnaheilla fyrir börn í 5. – 10. bekk grunnskóla um ofbeldi gegn börnum með áherslu á einelti og kynferðisofbeldi. Rannsóknir sýna að með aukinni fræðslu og sjálfseflingu eru minni líkur á að ofbeldi eigi sér stað og meiri líkur á að börn leiti sér aðstoðar ef þau lenda í erfiðum aðstæðum. Fræðsla til barna er því mikilvægur liður í því að uppræta ofbeldi gegn börnum. Markmiðið með fræðslunni er að nemendur þekki til einkenna eineltis og kynferðisofbeldis en einnig er lögð áhersla á samskipti, samþykki og mörk.

SKOH! Hvað er ofbeldi? byggir á þátttöku og tjáningu nemenda í öruggu og þægilegu umhverfi þar sem virðing og samkennd er í fyrirrúmi. Einnig er farið í leiki, sagðar eru sögur og horft á myndbönd sem snúast um ofbeldi, mörk og samskipti. Verkefnið valdeflir nemendur í að bregðast við ef grunur vaknar um eða tilkynna þarf ofbeldi. Námsefnið byggir á hugmyndafræði Vináttu og Verndara barna. Boðið er upp námskeið og fyrirlestra í forvörnum gegn einelti og kynferðisofbeldi.

  • Fræðsla í skólum fyrir nemendur í 5.-10. bekk, 2 kennslustundir
  • Kynning fyrir foreldra. Í lok hverrar fræðslu eru kennurum eða öðrum tengiliðum sendar glærur fyrir foreldra til upplýsingar um fræðsluna sem nemendurnir fengu.

Verndarar barna

Verndarar barna stuðlar að forvörnum gegn kynferðisofbeldi á börnum og skapar þannig öruggari og traustari framtíð fyrir börn. Markmiðið með fræðslunni er að kynna leiðir til að vernda börn gegn kynferðisofbeldi. En með því að upplýsa fólk er líklegra að bregðist rétt við aðstæðum og koma þannig í veg fyrir að börn verði fyrir ofbeldi og þeim alvarlegu afleiðingum sem slík áföll geta haft í för með sér.
Boðið er upp námskeið og fyrirlestra í forvörnum gegn kynferðisofbeldi.

  • Námskeiðið Verndarar barna er ætlað fullorðnum sem bera ábyrgð á umönnum og verndun barna, sínum eigin eða annarra, einnig stofnunum og félagasamtökum sem bera ábyrgð á eða þjóna börnum og unglingum.
  • Fyrirlesturinn 5 Skref til verndar börnum gegn kynferðisofbeldi er ætlaður fullorðnum sem vinna með börnum og unglingum. Einnig fyrir foreldra og aðra sem bera ábyrgð á börnum.

Allar nánari upplýsingar um samtökin og verkefnin veitir Ellen Calmon framkvæmdastýra í síma 6947864 eða í gegnum barnaheill@barnaheill.is