Meira en helmingur barna í Úkraínu er á flótta

Nú er mánuður liðinn síðan að innrásin í Úkraínu hófst. Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa 10 milljónir manna flúið heimili sín í Úkraínu vegna stríðsins, þar af 4,3 milljónir barna en það er meira en helmingur allra barna í landinu.

3,6 milljónir flóttafólks hafa flúið til nágrannaríkja, þar af 1,8 milljón börn en 6,5 milljónir eru á vergangi innan landamæra Úkraínu. Þetta er mesti flóttamannastraumur í Evrópu frá síðari heimstyrjaöld, en á hverri sekúndu leggur úkraínskt barn á flótta frá heimili sínu.

Frá því að stríðið hófst hafa 78 börn látið lífið og 105 til viðbótar særst samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Börn eru að upplifa skelfilegar aðstæður í Úkraínu. Það er enn mjög kalt í landinu og fer kuldinn illa með fólk á flótta, þar sem margir hafa ekki þak yfir höfuðið eða hlý föt til skiptanna. Auk þess er mikill skortur á vatni, mat og rafmagni sem hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og hafa börn meðal annars látið lífið úr vatnsskorti.

Barnaheill – Save the Children vinna hörðum höndum í Úkraínu við að veita börnum og fjölskyldum þeirra mannúðaraðstoð. Samtökin hafa unnið í landinu í um 8 ár, frá því að Rússland hóf innrás á Krímskaga árið 2014. Barnaheill vinna einnig í nálægðum ríkjum eins og í Rúmeníu þar sem stöðugur flóttamannstraumur er frá Úkraínu. Þar hafa samtökin sett upp fimm móttökustöðvar fyrir flóttafólk og fjórar flóttamannabúðir. Samtökin hafa einnig sett upp nokkur Barnvæn svæði í Rúmeníu, en það eru sérstök svæði fyrir flóttabörn til þess að geta leikið sér í öruggu umhverfi og þegið áfallahjálp og stuðning.

Barnaheill þakka öllum sem hafa lagt Neyðarsöfnun Barnaheilla vegna stríðsins í Úkraínu lið. Margt smátt gerir eitt stórt.

Hér getur þú lagt Neyðarsöfnun Barnaheilla í lið.

Systkinin Daryana* 4 ára og Danilo* 2 ára eru komin yfir til Rúmeníu og leika á Barnvænu svæði Barnaheilla í öruggu umhverfi. Þau flúðu Úkraínu ásamt móður sinni en faðir þeirra varð eftir í Úkraínu og gekk til liðs við herinn.

Hér getur þú lesið þér til um ,,Góðar leiðir til þess að tala við börn um stríð”

Fjölskylda á leiðinni út úr Úkraínu í átt að landamærum Rúmeníu

Hér má sjá fjölskyldu sem er komin á mótökustöð Barnaheilla í Rúmeníu, sem liggur við landamæri Úkraínu.