Sameiginleg fréttatilkynning vegna útgáfu fræðsluefnis um Barnasáttmálann

Barnaheill, Umboðsmaður barna, og UNICEF á Íslandi hafa í samstarfi við Menntamálastofnun gefið út nýtt efni með ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða veggspjald og bækling þar sem greinar Barnasáttmálans eru settar fram á aðgengilegan máta. Efnið er birt í dag á sumardaginn fyrsta á vefsíðum þeirra sem koma að verkefninu, eða á barnaheill.is, barn.is og unicef.is. Útgáfan er liður í vinnu við að uppfæra vef Barnasáttmálans, barnasattmali.is sem verður kynntur í haust.

Útgáfan markar ákveðin tímamót í vinnu með Barnasáttmálann en fjöldi samtaka um allan heim sem vinna að auknum réttindum barna, munu á komandi misserum nýta sömu útgáfu af Barnasáttmálanum. Hönnunin naut góðs af áliti fjölmargra barna víðsvegar um heiminn, m.a. íslenskra barna og naut textinn stuðnings Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Nýtt útlit Barnasáttmálans hefur það að leiðarljósi að gera Barnasáttmálann aðgengilegann öllum, fullorðnum og börnum. Efnið er ætlað til notkunar í skólastarfi og mun Menntamálastofnun sjá um dreifingu til grunnskóla landsins. Einnig stendur til að dreifa efninu víðar.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi óháð foreldrum eða forsjáraðilum og að þau þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur verið staðfestur af flestum þjóðum heims. Ísland hefur lögfest sáttmálann og felur það meðal annars í sér skyldu til þess að upplýsa almenning um ákvæði sáttmálans.

Það er ekki af tilviljun sem ákveðið er að kynna nýtt efni Barnasáttmálans á sumardeginum fyrsta. Frá því upp úr aldamótunum 1900 var dagurinn helsti hátíðisdagur ungmennafélaga um land allt og árið 1921 var dagurinn gerður að stuðningsdegi fyrir börn og gengur oft undir nafninu barnadagurinn.