Sigurgeir þreytir 17 kílómetra sjósund til styrktar börnum á Gaza

Mynd: Þráinn Kolbeinsson
Mynd: Þráinn Kolbeinsson

Sjósundkappinn Sigurgeir Svanbergsson stefnir á sjósund frá Akranesi og yfir til Reykjavíkurhafnar til styrktar börnum sem búa á Gaza í júlí næstkomandi. Hann ætlar sér að synda undir mögulega bestu haf- og veðurskilyrðum og er undirbúningurinn í fullum gangi. Leiðin sem hann mun synda er 17 kílómetrar, sem er það lengsta sem hann hefur þreytt í sjósundi.

Sigurgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að sjósundi en árið 2022 fylgdu Barnaheill honum til Vestmannaeyja þegar hann synti þaðan og yfir til Landeyjarsanda, um 12 kílómetra leið, þá til styrktar börnum á átakasvæðum. Barnaheill eru afar þakklát Sigurgeiri fyrir stuðninginn en þá safnaðist rúmlega 800.000 krónur.

Einnig synti Sigurgeir 12 kílómetra þvert yfir Kollafjörð, frá Kjalarnesi og til Reykjavíkur árið 2021, og hið svokallað Grettissund árið 2023, 10 kílómetra. Hann er því vanur að heilsa upp á marglyttur, fugla, fiska og hvali sem fylgja honum sundið eftir.

Hér getur þú styrkt neyðarsöfnun Barnaheilla til stuðnings börnum á Gaza