Sjö börn létu lífið í loftárás í Jemen í gær

Sjö börn létu lífið í loftárás í Jemen í gær, en alls fórust tuttugu í árásinni. Þetta er önnur loftárásin á aðeins nokkrum dögum en tíu börn létu lífið í þeirri fyrri. Stríðið í Jemen hefur staðið yfir í meira en fimm ár en fjöldi loftárása hefur aukist um 139% á síðustu sex mánuðum í samanburði við sex mánuði þar á undan. Xavier Joubert, framkvæmdarstjóri Barnaheilla – Save the Children í Jemen, óskar eftir alþjóðlegu vopnahléi.

Við berjumst fyrir því að alþjóðlegu vopnahléi verði komið á í Jemen og að allir stríðsaðilar virði mannréttindalög. Það er nauðsynlegt að hjálparsamtök geti veitt þeim aðstoð sem þurfa á að halda.

Mikil hungursneyð hefur ríkt í Jemen undanfarin ár og milljónir barna þjást. En nú er uppskerubrestur í mörgun héruðum landsins vegna flóða og er því neyðin gríðarleg. Einnig hefur kórónuveirufaraldurinn haft mikil áhrif í landinu, eins og víðsvegar annars staðar í heiminum. Heilbrigðiskerfið í Jemen er afar veikt og yfir helmingur heilbrigðisstofnanna eru óstarfhæfar vegna átakanna. Mörg sjúkrahús og heilsugæslur hafa verið sprengdar í loft upp og þær heilbrigðisstofnanir sem starfandi eru hafa afar takmarkaðan búnað til þess að veita Covid-19 sjúklingum læknisaðstoð.

Hægt er að styðja við starf Barnaheilla - Save the Children í Jemen hér.