Tvíburarnir Snædís María og Sigurbergur Áki kaupa fyrstu lyklakippuna í vorsöfnun Barnaheilla

Sigurbergur Áki og Snædís María fengu keyptu fyrstu lyklakippur Barnaheilla. Hér eru þau ásamt Guðrú…
Sigurbergur Áki og Snædís María fengu keyptu fyrstu lyklakippur Barnaheilla. Hér eru þau ásamt Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, verkefnastjóra Barnaheilla

Vorsöfnun Barnaheilla hafin -  söfnun til styrktar forvarnaverkefni Barnaheilla gegn kynferðisofbeldi á börnum

Hin árlega vorsöfnun Barnaheilla hófst í dag, föstudaginn 28. apríl, fjáröflunarherferð Barnaheilla til styrktar Verndurum barna, forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Þetta er í fjórtánda sinn sem fjáröflunin fer fram en hefð hefur verið fyrir því að selja ljós í formi lyklakippu. Í ár bregða Barnaheill af vananum og eru seldar lyklakippur sem hannaðar og handgerðar eru af listafólki í Síerra Leóne. 18 einstaklingar tóku þátt í að búa til lyklakippurnar og tók framleiðslan um 4 mánuði. „Öll fengu þau laun sem samsvaraði árslaunum fyrir vinnu sína,“ segir Kolbrún Pálsdóttir, kynningastjóri Barnaheilla.

Tvíburarnir Snædís María Jörundsdóttir og Sigurbergur Áki Jörundsson sem bæði voru nýlega valin í U19 landslið Íslands í fótbolta keyptu fyrstu lyklakippurnar í söfnuninni en setning söfnunarinnar fór fram í höfuðstöðvum KSÍ kl. 14 í dag. Þar sýndu danshópar frá Plié atriði. Einnig sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, nokkur orð um það viðamikla samstarf sem KSÍ og Barnaheill hafa gert um fræðslu um forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum til allra þjálfarar og annarra starfsmanna knattspyrnufélaga um land allt.

Vorsöfnun Barnaheilla stendur yfir dagana 28. apríl - 7. maí og er hægt að kaupa lyklakippurnar um land allt hjá sölufólki og inn á Barnaheill.is. Lyklakippan kostar 3.000 kr. og rennur allur ágóði sölunnar til Verndara barna, forvarnaverkefni Barnaheilla sem snýr að námskeiðum og fræðslu um hvernig koma megi í veg fyrir kynferðisofbeldi, þekkja vísbendingar um að ofbeldi hefur átt sér stað eða að möguleiki sé á því að verið sé að undirbúa jarðveg til að brjóta á barni. Á síðasta ári fengu rúmlega þrjú þúsund einstaklingar fræðslu Verndara barna.

 

Danshópar frá Plíe voru með atriði

Vanda Sigurgerisdóttir, formaður KSÍ, sagði nokkur orð og keypti lyklakippur

Barnaheill þakka öllum kærlega fyrir komuna