Út að borða fyrir börnin - vernd barna gegn ofbeldi

Út að borða fyrir börnin - fjáröflunarátak Barnaheilla
Út að borða fyrir börnin - fjáröflunarátak Barnaheilla

Út að borða fyrir börnin, fjáröflunarátak Barnaheilla og veitingastaða hefst í dag 15. febrúar. Veitingastaðir styðja átakið með því að láta hluta af verði valinna rétta renna til verkefna sem snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Átakið fer nú fram í ellefta sinn og stendur yfir í einn mánuð eða frá 15. febrúar til 15. mars.

„Við erum afar þakklát þeim veitingastöðum sem sjá sér fært að styðja verkefni Barnaheilla með þessum hætti, þrátt fyrir óvenjulega tíma“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. „Samtökin eru háð velvilja og stuðningi bæði almennings og fyrirtækja og þetta hjálpar okkur að vinna enn betur að þeim mikilvægu verkefnum sem heyra undir þennan málaflokk hjá okkur.“

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013 og í honum er börnum tryggður réttur til verndar gegn ofbeldi. Það er hlutverk hinna fullorðnu að gæta þess að hvert og eitt barn njóti réttar síns.

Verkefni Barnaheilla snúa að vernd barna gegn ofbeldi, bæði hér innanlands og þar sem neyðarástand ríkir. Tvö af stærstu innlendu verkefnum Barnaheilla eru annars vegar Vinátta, forvarnarverkefni gegn einelti í leik- og grunnskólum, og hins vegar Verndarar barna, sem er gagnreynd fræðsla í forvörnum og viðbrögðum við kynferðisofbeldi á börnum. Markmiðið er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð. Barnaheill eru einnig með verkefni í Sýrlandi, Jemen og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem áhersla er lögð á að vernda börn gegn ofbeldi.

„Þú getur slegið tvær flugur í einu höggi með því að fara út að borða með börnin. Bæði gleður þú börnin og átt með þeim samverustund og stuðlar í leiðinni að bættum mannréttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi,“ segir Erna.

Barnaheill gefa einnig út fræðsluefni um ofbeldi, reka ábendingalínu um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu í samvinnu við ríkislögreglustjóra, standa að fræðsluvef um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sinna fræðslu- og upplýsingagjöf um einnkenni og afleiðingar ofbeldis gegn börnum og aðgerðir vakni grunur um slíkt. Þá veita samtökin ráðgjöf og vinna að fjölda lagaumsagna þar sem þrýst er á stjórnvöld að tryggja með lögum að börnum sé veitt vernd gegn hvers kyns ofbeldi.