Út að borða fyrir börnin er fjáröflunarátak Barnaheilla og veitingastaða sem styðja vernd barna gegn ofbeldi. Átakið fer fram dagana 15. febrúar til 15. mars ár hvert. Veitingastaðirnir styðja átakið með því að láta hluta af verði valinna rétta renna til verkefna Barnaheilla sem snúa að vernd barna gegn ofbeldi, en viðskiptavinurinn greiðir fullt verð.

 

Þeir veitingastaðir sem taka þátt í átakinu árið 2023 eru:

KFC – 25% af barnamatseðli- rennur til verkefna Barnaheilla.
8 staðir í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og Selfossi

DOMINOS – 35% af sóttum Pizzum (gildir ekki af tilboðum) - rennur til verkefna Barnaheilla.
25 staðir víða um landið

GRILL 66 - 25% af barnamáltíð - rennur til verkefna Barnaheilla.

MATARKJALLARINN – styrkir verkefni Barnaheilla.
Aðalstræti 2, Reykjavík

TACO BELL –25% af barnamatseðli - rennur til verkefna Barnaheilla.

PIZZA HUT - 25% af barnamatseðli - rennur til verkefna Barnaheilla.

GALITO - 50% af barnamatseðli - rennur til verkefna Barnaheilla.

BURGER-INN - styrkir verkefni Barnaheilla.

NAUTHÓLL - 25% af barnamatseðli - rennur til verkefna Barnaheilla.

KRINGLUKRÁIN - 25% af barnamatseðli - rennur til verkefna Barnaheilla.

Vernd barna gegn ofbeldi

Öll börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi, hvort sem um er að ræða líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi – og þau eiga rétt á vernd gegn einelti og vanrækslu. Það er hlutverk hinna fullorðnu að gæta þess að hvert og eitt barn njóti réttar síns samkvæmt barnasáttmálanum sem var lögfestur hér á landi árið 2013.

Tvö af stærstu verkefnum Barnaheilla snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Annars vegar, er Vinátta, forvarnarverkefni gegn einelti í leik- og grunnskólum. Verkefnið er danskt að uppruna, byggt á nýjustu rannsóknum um einelti og hefur reynst sérstaklega vel. Samtökin gáfu út Vináttuefni fyrir 3ja - 6 ára árið 2016 og fyrir 0-3ja ára í ársbyrjun 2019. Efni fyrir grunnskóla kom út haustið 2020. Hins vegar, er námskeiðið Verndarar barna sem er gagnreynd fræðsla í forvörnum og viðbrögðum við kynferðisofbeldi á börnum. Markmiðið er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð.

Barnaheill gefa meðal annars út fræðsluefni um ofbeldi, vinna að vitundarvakningu, reka ábendingarlínu um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu í samvinnu við ríkislögreglustjóra, standa að gagnvirkum fræðsluvef um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sinna fræðslu- og upplýsingagjöf um einnkenni og afleiðingar ofbeldis gegn börnum og aðgerðir vakni grunur um slíkt. Þá veita samtökin ráðgjöf og vinna að fjölda lagaumsagna þar sem þrýst er á stjórnvöld að tryggja með lögum að börnum sé veitt vernd gegn hvers kyns ofbeldi.

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.