Vannæring barna eykst í Sýrlandi í kjölfar Covid-19

Hér fær Ibrahim, 4 mánaða gamall, læknisaðstoð á vegum Barnaheilla – Save the Children. Móðir hans l…
Hér fær Ibrahim, 4 mánaða gamall, læknisaðstoð á vegum Barnaheilla – Save the Children. Móðir hans leitaði til Barnaheilla eftir að elsti sonur hennar var drepinn í loftárás og maðurinn hennar lamaðist. 

Sjö hundruð þúsund börn bætast í hóp þeirra barna sem þjást af miklu hungri í Sýrlandi vegna mikilla efnahagslegra áhrifa Covid-19. Á síðustu sex mánuðum er heildarfjöldi þeirra barna sem búa við mikið fæðuóöryggi í Sýrlandi orðinn meiri en 4,6 milljónir. Í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children kemur fram að eftir nærri 10 ára átök í Sýrlandi þjást enn fleiri börn af alvarlegri vannæringu.

Samtals hafa 5.480 tilfelli Covid-19 verið staðfest í Sýrlandi, en talið er að sú tala sé stórlega vanmetin. Sýnatökur eru ekki algengar og erfitt er að sækja sér læknisþjónustu til að skima fyrir sjúkdóminum. Flestum er ráðlagt að taka inn lyf og þeim vísað frá sýnatöku. Mikill skortur er á aðbúnaði til þess að takast á við kórónuveiruna en gjörgæslurúm og öndunarvélar eru af mjög skornum skammti í landinu. Samkvæmt opinberum tölum eru mjög fá dauðsföll af völdum veirunnar eða 185 talsins. Á ýmsum svæðum í Sýrlandi hefur eftirspurn til að grafa grafir aukist og því er talið að fjöldi dauðsfalla sé töluvert meiri.

Auk þeirra takmarkanna sem eru af völdum kórónuveirunnar hafa átökin sem hafa staðið yfir í nærri áratug og aukið atvinnuleysi haft áhrif á afkomu milljóna manna. Gengislækkun er mikil og takmörkun á vöruflæði inn til landsins hefur einnig gert ástandið verra og ýtt undir að matvælaverð verði sífellt hærra. Matarkarfa sem getur fóðrað fjölskyldu kostar helmingi meira í dag en árið 2016 og 23 sinnum meira en fyrir 10 árum, áður en átökin hófust, samkvæmt Alþjóða matvælastofnuninni.

 

Faten 10 ára, býr í flóttamannabúðum í norðvestur Sýrlandi og segist alltaf vera svangur.

Við borðum stundum ekki kvöldmat af því að það er ekki til brauð. Við vöknum svöng og stundum fáum við ekki heldur að borða fyrr en um kvöldið daginn eftir. Það fer eftir því hvort við náum að útvega okkur brauð. Þegar við vorum heima gátum við borðað hvað sem er, hvenær sem er. En hér, þá er maturinn öðruvísi og við eigum ekki efni á að kaupa okkur mat lengur.

Foreldrar þurfa oft að treysta á hrísgrjón eða korn í margar vikur og ferskur matur eins og kjöt, fiskur, ávextir og grænmeti standa mörgum ekki til boða. og . Í nýlegri könnun sem Barnaheill – Save the Children gerðu kom í ljós að 65% barna hafa ekki fengið epli, appelsínu eða banana í að minnsta kosti þrjá mánuði. Í norðaustur Sýrlandi sögðu næstum fjórðungur barna ekki hafa borðað þessa ávexti í að minnsta kosti níu mánuði. Fjöldi barna sögðu starfsmönnum Barnaheilla – Save the Children að það eina sem þau höfðu borðað síðastliðnar vikur væru hrísgrjón og baunir. Ein móðir sagði frá því að það tæki hana þrjár vikur til þess að safna fyrir einu epli, sem hún skiptir í fimm bita fyrir hvern fjölskyldumeðlim.

Rami, faðir tveggja barna; tveggja og sex ára, sagðist hafa miklar áhyggjur af vannæringu barna sinna.

Börnin vaxa miklu hægar. Ég hef svo miklar áhyggjur af þessu og hef farið með þau til fjölda lækna sem gefa okkur mismunandi lyf. Engin þeirra hafa virkað. Sumir læknar segja að þetta sé vannæring en aðrir koma með aðrar ástæður.

Vannæring barna er mjög vanmetið vandamál í Sýrlandi segir Sonia Khush, svæðisstjóri Barnaheilla – Save the Children í Sýrlandi.

Vannæring hefur varanleg áhrif á börn. Vannæring barna takmarkar getu þeirra til þess að berjast gegn sjúkdómum, eykur líkurnar á kvíða og þunglyndi og leiðir til slæmrar frammistöðu í skóla. Heil kynslóð stendur frammi fyrir hættu á vannæringu, vegna þess að fjölskyldur þeirra hafa einfaldlega ekki lengur efni á að gefa þeim að borða. Við verðum að bregðast við núna til að draga úr þjáningum barna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa tekið þátt í mannúðaraðstoð í Sýrlandi síðan árið 2012. Nýverið skrifuðu samtökin undir samning við utanríkisráðuneytið með það að markmiði að veita aukið fjármagn í viðbragðsjóð Save the Children International í Sýrlandi með áherslu á aðgerðir vegna Covid-19.  Save the Children í Sýrlandi leggja m.a. áherslu á að tryggja fæðuöryggi fjölskyldna og dreifa matarpökkum með ferskum ávöxtum og grænmeti. Samtökin kalla þó eftir frekari fjármögnun til að tryggja fæðuöryggi í landinu og að alþjóðasamfélagið komi saman og hjálpist að með að bæta framboð og lækka verð át mat í Sýrlandi. Eins kalla samtökin eftir óheftu aðgengi að almenningi, en erfitt hefur reynst að koma þeim til hjálpar sem þurfa mest á því að halda vegna þeirra átaka sem hafa verið ríkjandi. Í júlí síðastliðnum var landamæraskrifstofu samtakanna lokað norðan við Aleppo vegna átakanna en samtökin hafa óskað eftir því að endurheimta skrifstofu sína til að létta á þjáningum fjölskyldna sem berjast við langvarandi áhrif átakanna og útbreiðslu heimsfaraldurs á því svæði.

Þú getur lesið um neyðaraðstoð barnaheilla í sýrlandi hér

 

Hér eru bræðurnir Nazan 2 ára og Yazan 5 mánaða. Móðir þeirra flúði heimili sitt í Aleppo fyrir tveimur árum þegar eldri sonurinn var nýfæddur. Hann vóg 400 gr. Móðirin leitaði á sjúkrahús þar sem Nasser var undir eftirliti og nærðist. Vegna álags tókst henni ekki að hafa hann á brjósti.

Joud, tveggja ára, gæðir sér á epli, sem börn í Sýrlandi fá afar sjaldan

Hér eru börn á leik í einu af Barnvæðu svæðum Barnaheilla – Save the Children