Milljónir barna þjást af vannæringu vegna Covid-19

Michelle, 9 ára, og systir hennar, 1 árs. Litla systirin þjáðist af mikilli vannæringu og hefur feng…
Michelle, 9 ára, og systir hennar, 1 árs. Litla systirin þjáðist af mikilli vannæringu og hefur fengið daglega jarðhnetumauk á heilsugæslu til þess að ná þyngd og fá næringaríka fæðu

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Barnaheillum - Save the Children hefur fátækt í heiminum aukist gífurlega vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur haft meiriháttar áhrif á lífsviðurværi fólks. Vegna faraldursins þjást milljónir af vannæringu vegna hungurs og er áætlað að fjöldi barna sem þjást muni af vannæringu í kjölfar heimsfaraldurs muni aukast um 9,3 milljónir barna. Í skýrslunni kemur fram að áætlað er að um 153 börn muni láta lífið á hverjum degi vegna vannæringar sem tengist Covid-19 næstu tvö árin.

Vegna heimsfaraldurs er sá árangur sem náðst hefur, í baráttunni gegn vannæringu, undanfarin ár, á undanhaldi og gjalda börn í Asíu og sunnan Sahara mest fyrir áhrif Covid-19 á fátækt.

Áður en heimsfaraldur skall á áttu fjölskyldur víða um heim erfitt með að útvega næringarríkan mat fyrir börn sín, þar sem eitt af hverjum þremur börnum þjáðist af vannæringu. Samkvæmt skýrslunni þá hefur heimsfaraldur aukið þetta skelfilega ástand og ef ekki er brugðist við þá áætla Barnaheill - Save the Children að 168.000 börn til viðbótar muni deyja úr vannæringu á næstu tveimur árum. Án aðgerða eiga milljónir barna til viðbótar á hættu á að verða fyrir óafturkræfu heilsutjóni vegna skorts á næringarríkum mat. Viðkvæm samfélög úti um allan heim eru á barmi neyðarástands, þar sem 11 milljónir barna yngri en fimm ára glíma við mikið hungur.

Michelle, 9 ára stúlka frá Kongó, er ein af milljónum barna í heiminum sem hefur áhyggjur af því á hverjum degi hvort hún fái að borða þann dag. Hún á eins árs gamla systur sem þjáist af alvarlegri vannæringu og á hverjum degi fer Michelle með systur sína á næstu heilsugæslustöð þar sem sú yngri fær næringarríkt jarðhnetumauk. Jarðhnetumaukið getur bjargað lífi barna og flýtt fyrir að þau nái heilsu á ný.

Systir mín var orðin mjög horuð vegna þess að við borðum ekki vel. Við borðum yfirleitt aðeins einu sinni á dag, á morgnanna, og við förum svöng að sofa. Ég held á systur minni á heilsugæslustöðina á hverjum degi. Ég vil að hún verði heilbrigð aftur.

Í Jemen ríkir ein mesta mannúðarógn samtímans og gríðarleg hungursneyð er í landinu. Nýleg gögn frá Sameinuðu þjóðunum áætla að um 16,2 milljónir manna þar í landi, þar af 7,35 milljónir barna, muni glíma við alvarlegan matarskort snemma á árinu 2021, bæði vegna átakanna sem standa yfir en einnig vegna Covid-19.

Gabriella Waaijman, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Barnaheillum - Save the Children hefur miklar áhyggjur af vannæringu barna í heiminum.

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur hungursneyð í viðkvæmum samfélögum aukist og við verðum að stöðva þessa ógn. Til að binda enda á hungur verðum við að takast á við orsakir hungursneyðar. Það er m.a. að binda enda á átök, bregðast við loftslagsbreytingum, byggja upp þéttari samfélög og tryggja hjálparsamtökum óhindraðan aðgang að viðkvæmustu svæðum heims. Ef við bregðumst við núna getum við komið í veg fyrir fjölda dauðsfalla.
Heimsfaraldurinn hefur neytt okkur til þess að endurskoða samfélagið sem við búum í og gefið okkur tækifæri til að endurskipuleggja betri heim fyrir börn.

Til að afstýra næringarkrísu í heiminum á næstu árum hvetja Barnaheill - Save the Children stjórnvöld og aðrar stofnanir til að grípa strax til aðgerða. Þær aðgerðir felast m.a. í að tryggja fjármögnun til að binda enda á hungur í heiminum og að stjórnvöld og stofnanir skuldbindi sig til langs tíma. Mikilvægt er að hagsmunir barna séu teknir til greina í ákvarðanatökuferlinu þegar kemur að baráttunni gegn hungri og vannæringu í heiminum og að forgangsröðun úthlutunar fés fari eftir ákveðnu ferli.

 

Michelle, 9 ára frá Kongó, með systur sinni 1 árs sem þjáðist af alvarlegri vannæringu. Michelle fer með systur sína á hverjum degi á heilsugæslustöðina þar sem hún fær jarðhnetumauk, næringaríka fæðu sem hjálpar henni að ná þyngd. 

Þú getur keypt jarðhnetumauk hér

Barnaheill - Save the Children á Íslandi styðja við börn í Sýrlandi, Jemen og Kongó. Inn á Heillagjafir.is er hægt að styðja við börn sem m.a. búa við mikið hungur og þjást af vannæringu.