Vinátta að hausti

Haustfréttir vináttu október 2021

Að koma aftur í skólann sinn að hausti er flestum börnum og starfsfólki ánægjulegt. Eftirvæntingin er oft mikil eftir því að hitta aftur félaga sína og takast á við ný verkefni. Því miður hlakka þó ekki allir til að fara í skólann. Sum börn kvíða því og bera fyrir sig vanlíðan til að sleppa vonandi við að þurfa að mæta. Enn eru börn lögð í einelti, eru útilokuð úr hópnum, eiga ekki félaga eða vini eða eru ekki viðurkennd með þá eiginleika sem þau búa yfir. Einelti er því miður enn allt of algengt og afleiðingar þess geta haft gríðarlega mikil áhrif á sjálfsmynd, líðan og heilsu barna. 

Hvað skiptir mestu máli?

Á námskeiðum Vináttu eru þátttakendur ávallt spurðir hvað þeir haldi að foreldrum finnist mikilvægast að börn þeirra upplifi í skólanum. Á fyrirlestrum fyrir foreldra eru þeir spurðir sömu spurningar. Svörin eru yfirleitt alltaf þau sömu og gildir þá einu hvort um er að ræða kennara eða foreldra í leik- eða grunnskólum: Foreldrar eiga þá ósk heitasta að barni þeirra muni líða vel í skólanum, finni fyrir öryggi og umhyggju og eignist félaga eða vin.

Mörg börn og foreldrar eru hræddir við útilokun úr hópi. Öll börn eiga rétt á að tilheyra og vera raunverulegur hluti af því samfélagi sem þau eru í. Útilokun getur falist í fleiru en að fá ekki að vera með í leik. Sá sem upplifir að aldrei sé tekið tillit til þess sem hann stingur upp á að gera, eða skoðanir virtar að vettugi, upplifir útilokun. Áður ríkti það viðhorf að einelti kæmi upp þegar barn vildi vinna öðru barni mein.

Með auknum rannsóknum sem Vinátta byggir á er vitneskja fyrir því að einelti komi upp þegar eitt eða fleiri börn óttist að þau verði útundan í hópnum. Börn reyna þá að tryggja stöðu sína og ýta þá jafnvel öðrum út á jaðarinn til að skapa pláss fyrir sig sjálf. Þessi jaðar getur verið margs konar; leikur, skoðanir, tillögur, áhugamál, klæðnaður eða útlit. Og það getur breyst daglega hvað notast er við hverju sinni. Það er því ljóst að það hefur ekkert með einstaklingana að gera hvort einelti sé til staðar eða ekki heldur sú menning sem hefur myndast í hverjum og einum hópi.

Að vinna með gildi Vináttu

Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Með því að vinna með gildi Vináttu er stuðlað að því. Gildi Vináttu eru eftirfarandi:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gildi vináttu

Hér eru hugmyndir um hvernig hægt er að vinna með gildin:

 

Að hefjast handar með Vináttu

Í mörgum skólum fer Blær bangsi í sumarfrí líkt og börnin og í sumum skólum og frístundaheimilum hefur vinna með verkefni Vináttu legið niðri um tíma. Ef svo, þá er sannarlega kominn tími til að opna töskuna á ný.

Það er svo einfalt að vinna með Vináttu að það er nóg sé að opna töskuna og þá virkar Vinátta! Eina leiðin til að Vinátta virki ekki, er ef töskurnar og hugmyndafræðin safnar ryki uppi í hillu! Hver og einn kennari getur því byrjað að hausti á þann hátt sem best er fyrir hvern hóp. Ef börnin þekkja efnið og Blæ bangsa, þarf ekki mikinn fyrirvara. Einungis taka spjald úr töskunni og ræða það, fara í rólega nuddstund, hlusta á tónlist Vináttu, fara í leiki og hreyfa sig með eða lesa sögu.

Þeir sem eru að byrja með nýja hópa geta haft meiri viðhöfn þegar hafist er handa. Í leiðbeiningahefti og verkefnahefti, sem fylgir efninu eru fjöldi hugmynda. Þar má nefna að fara í ratleik til að finna Blæ og litlu bangsana þar sem þeir eru notaðir.

Svo má ekki gleyma því að allt sem hægt er að gera inni er líka hægt að gera úti og þið getið alltaf notað bókina Vinátta í útivist- útinám og leikur í útiveru til að fá fleiri hugmyndir.

Höfum Vináttu sýnilega í skólanum

Við hvetjum alla til að hafa Vináttu sýnilega í skólanum. Gott er að hafa veggspjöldin á áberandi stað fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Það minnir alla á að hafa gildi og hugmyndafræði Vináttu að leiðarljósi í daglegu skólastarfi.

Vefsíða skólanna er glugginn út í samfélagið. Því er mikilvægt að hafa lógó Vináttu, foreldraráðin og aðrar upplýsingar sýnilegar á vefsíðunni. Þannig vita foreldrar og aðrir sem skoða vefsíðuna að verið sé að vinna með Vináttu, félagsfærni barnanna og samskipti í skólanum. Það veitir foreldrum öryggi, hvetur þá til að kynna sér efnið og tileinka sér hugmyndafræðina heima við. Flestir skólar eru með eineltisáætlanir sem eru tilgreindar á vefsíðu skólans. Þar er kjörið að segja frá Vináttu sem er forvarnaáætlun gegn einelti. Því meira sem foreldrar eru upplýstir um Vináttu því meira tileinka þeir sér hugmyndafræðina og stuðlar að enn betra samstarfi milli heimila og skóla.

Lógó og fleiri myndir til að setja á vefsíður má finna hér.

Alþjóðlegi bangsadagurinn 27. október 

 

Bangsinn Blær

Í mörgum leik- og grunnskólum er alþjóðlega bangsadeginum sérstaklega fagnað og oftar en ekki koma börnin með bangsa að heiman í skólann þann dag. Blær er alltaf mjög spennt/ur fyrir þessum degi og vill gjarnan minna á sig í tilefni dagsins.

 

 

 

 

27. október er fæðingardagur Theodore (Teddy) Roosevelt, fyrrv. Bandaríkjaforseta. Sagan segir að eitt sinn þegar hann var á veiðum hafi hann séð lítinn bjarnarhún sem hann sleppti lausum. Birtar voru skopmyndir af þessu atviki og leikfangabangsi var útbúinn í kjölfarið sem kallaður var Teddy Bear í höfuðið á forsetanum.

 

 

 

Dagur gegn einelti 8. nóvember

Þann 8. nóvember ár hvert er Dagur gegn einelti. Allir eru hvattir til að halda daginn sérstaklega í heiðri og tilvalið er að minna sérstaklega á hugmyndafræði Vináttu þann dag. Í Vináttu er lögð meðal annars áhersla á að skoða menninguna í hópnum í heild sinni en ekki líta á einelti sem einstaklingsbundinn vanda. Mikilvægast af öllu er að sjá til þess að allir í hópnum komi út úr aðstæðum með reisn og ekki búa til sérstaka sökudólga og fórnarlömb. Aðalmarkmiðið á alltaf að vera það að bæta samskiptin sem eru á meðal barnanna í hópnum.

Næstu námskeið Vináttu

Grunnskólar og frístundaheimili

  • Fjarnámskeið. 3. og 4. nóvember kl 13-16. Skráning
  • Staðnámskeið. 16. og 17. nóvember kl 13-16. Skráning

Leikskólar og dagforeldrar

  • Fjarnámskeið 10. og 11. nóvember kl 13-16. Skráning
  • Staðnámskeið 25. nóvember kl 9-16. Skráning

Tónlistarnámskeið

  • 15. nóvember. Tímasetning kemur síðar. Skráning

Námskeið og fyrirlestrar í skólum

Margir skólar og frístundaheimili óska eftir því að fá námskeið fyrir allt starfsfólkið og stendur það til boða. Einnig er boðið upp á styttri kynningar fyrir foreldra og starfsfólk í skólum sem nú þegar eru Vináttuskólar.

Hafið samband í gegnum netfangið vinatta@barnaheill.is til að fá nánari upplýsingar.

Sjá fréttabréfið sem pdf skjal hér