Vinátta vex og dafnar

Börn á leikskólanum Álfaheiði.
Börn á leikskólanum Álfaheiði.

Bangsinn Blær

Haustið er tíminn þegar leik- og grunnskólabörn streyma í skólann á ný eftir sumarleyfi. Mörg þeirra eiga endurfund með Blæ bangsa og sum þeirra fá að kynnast Blæ í fyrsta sinn. Blær bangsi er táknmynd Vináttu – forvarnaverkefnis Barnaheilla gegn einelti. Blær er börnunum stuðningur, huggar og hughreystir.

Forvarnarverkefnið Vinátta

Barnaheill hófu útgáfu á námsefninu Vináttu árið 2016. Efnið hefur hlotið einstaklega góðar viðtökur og breiðst hratt út. Í Vináttu er lögð er áhersla á að fyrirbyggja einelti með því að efla samskiptahæfni og tilfinningaþroska barna. Efnið er danskt að uppruna og heitir Fri for mobberi á dönsku. Íslensk útgáfa er í samstarfi við Red barnet og Mary Fonden í Danmörku. Nú hafa um 45% leikskóla tekið efni ætlað þriggja til sex ára í notkun. Tilraunakennsla stendur yfir í 20 grunnskólum á Vináttuefni fyrir yngstu þrjá árganga grunnskóla og efni fyrir börn yngri en þriggja ára er í vinnslu og væntanlegt síðla hausts.

Námskeið vináttu

Nokkur námskeið um Vináttu fyrir kennara og starfsfólk skóla hafa verið haldin nú í ágúst og fleiri eru fyrirhuguð á næstu vikum og mánuðum. Stöðugt fleiri skólar bætast í hóp Vináttuskóla.

Tónlist Vináttuverkefnisins

Tónlist er ríkur þáttur í Vináttu og boðið er upp á sérstök tónlistarnámskeið. Þau eru í höndum Birte Harksen sem er fagstjóri tónlistar í leiskólanum Urðarhóli. Birte segir í viðtali í nýjasta Blaði Barnaheilla að það gerist einhverjir töfrar þegar unnið er með Vináttu og tónlistina með börnunum.

Nánari upplýsingar um Vináttu má finna á vefsíðu Barnaheilla.

VináttaVinátta