Heillagjafir fyrir börn á Gaza

Sala Heillagjafa Barnaheilla fyrir jólin 2023 er hafin og að þessu sinni rennur ágóði sölunnar til barna á Gaza. Átökin á Gaza hafa breytt lífi barna þar og upplifa þau ótta, kvíða og óvissu á hverjum degi. Börn eru fórnarlömb átakanna; þúsundir barna hafa verið drepin, fjöldi barna hefur særst og mörg börn eru týnd. Börn á Gaza eru útsett fyrir alvarlegum andlegum áföllum sem geta háð þeim og fylgt alla ævi. Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children starfa á vettvangi á Gaza og vinna hörðum höndum að því að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra, meðal annars að veita þeim sálrænan stuðning.

Ahmed, 10 ára, hefur þegið sálrænan stuðning frá Barnaheillum undanfarna daga. Hann býr ásamt foreldrum sínum og systkinum í Jabalia á Gazasvæðinu en þar hefur verið mikið um loftárásir undanfarnar vikur. Ahmed segist lifa í ótta á hverjum degi og þjáist hann af svefnleysi, martröðum og miklum verkjum.

Inn á heillagjafir.is er fjöldi Heillagjafa sem hægt er að velja úr. Þú getur keypt sálrænan stuðning við börn, hlýjan fatnað, matarpakka og drykkjarvatn svo fátt eitt sé nefnt. Allt sem kemur sér að góðum notum fyrir börn á Gaza sem búa við hörmulegar aðstæður. Með kaupum á Heillagjöf færðu sent veglegt gjafabréf í netpósti, í stærð A4, sem hægt er að prenta út og setja í jólapakkann.

Láttu gott að þér leiða um jólin og gefðu gjöf sem skiptir sköpum.