Hjólaviðgerðardagurinn mikli

Það var glatt á hjalla og mikið um að vera þegar sjálfboðaliðar mættu til að gera upp hjól sem söfnuðust í hjólasöfnun Barnaheilla - Save the Children á Íslandi og Wow Cyclothon. Veðrið lék við hjólaviðgerðarfólk sem naut lifandi tónlistar Óskars og Ómars Guðjónssona og gæddi sér á hamborgurum frá Hamborgarabúllunni.

Söfnunin er hluti af átaksverkefni sem ætlað er að auka meðvitund um mikilvægi hreyfingar og líkamlegs heilbrigðis barna. Barnaheill standa að átakinu í samvinnu við hjólreiðakeppnina Wow Cyclothon.

Hjólin sem söfnuðust í keppninni verða afhent af mæðrastyrksnefndum til barna sem ekki hafa tök á því að kaupa sér hjól.

Um WOW Cyclothon.
WOW Cyclothon er fyrsta alþjóðlega hjólreiðakeppnin sem haldin hefur verið á Íslandi. Hjólað verður 1332 kílómetra hringinn í kringum landið dagana 19. júní -22. júní í miðnætursólinni. Í keppninni munu þrettán fjögurra manna lið keppa sín á milli um að koma fyrst í mark. Öll áheit á hjólaliðin sem taka þátt í Wow Cyclothon keppninni renna óskipt til áheitaverkefnis Barnaheilla -- Save the Children á Íslandi „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna".

Um átaksverkefnið Hreyfing og líkamlegt heilbrigði.
Barnaheill -- Save the Children á Íslandi vinna um þessar mundir að átaksverkefni sem byggir á ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til líkamlegs heilbrigðis. Börn verða hvött til þátttöku í ýmis konar hreyfingu með reglulegum viðburðum þar sem mismunandi íþróttagreinar verða hafðar í hávegum. Verkefnið miðar að því að efla vitund barna og foreldra um heilbrigt líf fyrir börn og mikilvægi reglulegrar hreyfingar. Aðal markmið átaksins er að auka vægi hreyfingar hjá íslenskum börnum og efla þannig bæði líkamlegt og andlegt heilbrigði sem og stuðla að almennum heilsufarslegum forvörnum.

Stjórn upptöku, klipping og umsjón: Sigríður Guðlaugsdóttir. Allur réttur áskilinn.