Jemen

Hungursneyð í Jemen er sú alvarlegasta sem þekkist í heiminum og versnar með hverjum deginum. Talið er að um 24 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda - um 80% landsmanna - þar af meira en 12,3 milljón börn. Á tíu mínútna fresti deyr barn í landinu vegna vannæringar, beinbrunasóttar, kóleru, niðurgangspesta eða í loftárásum. Meirihluti barna hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu og milljónir barna þjást af alvarlegri vannæringu. Þúsundir barna hafa verið drepin eða limlest í stríðinu og meira en helmingur barna í Jemen þjáist af andlegum veikindum á borð við ótta og kvíða, sem getur haft langvarandi áhrif á heilsufar þeirra. Mikill skortur er á barnageðlæknum í landinu og búast má við yfirvofandi geðheilbrigðiskreppu. Einungis helmingur heilbrigðisstofnana í Jemen er starfandi en árásir á heilbrigðisstofnanir hlaupa á hundruðum. Þær heilbrigðisstofnanir sem eru starfandi eru ekki í stakk búnar til þess að taka á móti þeim miljónum manna sem þurfa á brýnni heilbrigðisþjónustu að halda í landinu.

Milljónir barna á skólaaldri stunda ekki nám en þúsundum menntastofnana hefur verið lokað sökum ástandsins. Þá hafa skólar skemmst eða eyðilagst. Hátt hlutfall barna er í kjölfarið hneppt í barnaþrælkun. 

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa veitt neyðaraðstoð til jemenskra barna með stuðningi utanríkisráðuneytisins.